Thursday, July 19, 2007

 

Væta.

Búið að rigna nokkuð í morgun. Kærkomin væta fyrir skrælþurra jörð. Undirritaður man nú ekki eftir jafnlöngum sólskins- og góðviðriskafla í veðurfarinu. Hann hefur sannað mér enn og aftur að íslenskir góðviðrisdagar á þessum árstíma eru betri en annarsstaðar í veröldinni. Ég varð að mæta til brauðstrits í morgun. Veiðifrí í gær og það verður indælt að slökkva á vinnutölvunni kl. 5. Nýjar væntingar til morgundagsins. Dagurinn í gær lagðist ákaflega vel í mig í fyrradag. Svaf svo óvenjumikið og í gærmorgun vissi ég að vel að eitthvað skemmtilegt myndi gerast. Það var reyndar orðið sólarlaust þegar ég kom að ánni rétt fyrir 7. Veiðfélagarnir komu síðan fljótlega og við renndum færum okkar. Fyrir framan stólinn lyfti sér fallegur smálax. Það var góðs viti. En hann virtist ekki kæra sig um orminn Harðarnaut. Meðengisorminn. Það leið klukkutími. Færið mitt á flugreki niður strauminn þegar einhver óvenjulegur titringur kom á það. Laxinn hafði rennt gómsætinu niður í maga. Líklega hefur það verið á sekúndunni átta. Hann var sprækur og sterkur en varð nú að játa sig sigraðan. Nýgenginn 8 punda hængur. 7-3 fyrir Raikonen. Á sekúndunni 10 endurtók sagan sig. Annar hængur lét blekkjast. Hann var 3,2 kg. 7-4 fyrir köttinn. Fleiri urðu nú ekki laxar mínir og veiðifélaganna á fyrri vaktinni. Og efra svæðið virtist algerlega líflaust á seinni vaktinni. Ég var ánægður og sáttur með góða veiði og indæla útiveru við fljótið sem ég er fæddur og uppalinn við. En smeykur er ég um að áin mín sé ekki par sæl með fyrirætlanir meirihluta bæjarstjórnarinnar. Hinn alræmda fábjánameirihluta. Megi hann aldrei þrífast. Nóg var nú lagt á umhverfi hennar með Hótel Selfossi. Þessari viðurstyggð bygginarlistarinnar. Hvenær skyldu vitibornar verur verða kosnar í bæjarstjórn Árborgar? Vonandi kemur nú einhverntíma að því. Með veiði- og sumarkveðjum frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online