Thursday, February 08, 2007

 

Gullgæsir.

Geir Haarde hefur talað. Talað um að menn slátri ekki gullgæsum. Það má alls ekki hækka fjármagnstekjuskatt og það þarf endilega að lækka skatta á fyrirtækjum. Sérstaklega ef það eru nú bankarnir. Ef skattar lækki á bankastarfsemi verði það hvati til enn meiri gróða. En Geir talar ekki um það þegar þessir sömu bankar voru nánast afhentir "réttum" mönnum í þjóðfélaginu fyrir smáaura. Það var flokkur hans með hjálp afturgöngunnar sem það gerðu. Davíð sagðist ætla að selja þjóðinni Landsbankann. Sem hún átti nú hvort eð var. En svo hringdi bara í hann maður sem sagðist vilja fá bankann. Og hann fékk hann. M.a.s. fékk hann öll Kjarvalsmálverkin með honum. Og fleiri verðmæt listaverk. Bankann fékk hann fyrir smábrot af gróða hans síðasta ár.Öll þjónustugjöld bankanna hafa hækkað upp úr öllu valdi síðan þeir voru einkavinavæddir. Vaxtaokrið hefur aldrei verið meira. Hinn venjulegi alþýðumaður er að sligast í þrælakistunni sem þessir nýju herrar hafa komið honum í. Og hann verður að greiða helmingi hærra skatthlutfall af tekjum sínum en bankarnir af sínum tekjum. Hann er engin gullgæs. Bara andskotans aumingi.Þessvegna er eðlilegt að hann greiði hærri skatt en bankinn. Ef ríkisstjórnin heldur velli í kosningunum mun sjálfstæðisflokkurinn enn notast við framsókn næstu 4 ár. Og það verður haldið áfram á sömu braut. Litli flokkurinn fær að raða útvöldum sauðum sínum á garðann. Landsvirkjun verður afhent "réttum" mönnum. Mér kæmi t.d. ekki á óvart þó Finnur Ingólfsson yrði einhversstaðar nálægur. Eins og stundum þar sem feitt er á stykkinu. Það virðist vera stefnan að þessir réttu menn eignist allt í þjóðfélaginu. Fólkið þar meðtalið. Þá verðum við bara hjörð í eigu þessara manna. M.a.s. húsnæðið endar í höndum þeirra ef fram fer sem horfir. Bankarnir eru nú þegar farnir að eignast hluta af húsnæði almúgamannsins. Verðbólgan og vaxtaokrið sjá til þess að þróunin er í þessa átt. Það er þó enn von til þess að snúa þróuninni við. Fyrsta skrefið í þá átt er að kjósa ekki þessa flokka í næstu kosningum. Og halda í gullgæsirnar sem enn eru óseldar. Hætta að gefa útlendum auðhringjum rafmagnið okkar.Látum þá bara loka Straumsvíkurálverinu ef þeir fá ekki að stækka það. Farið hefur fé betra. Við íslendingar höfum sýnt að við erum ekki alls ónýtir í hátækni. Heilabúið spúir ekki koltvísýringi út í andrúmsloftið. Við eigum að hætta flaðrinu fyrir auðhringjum. Hætta að afhenda þeim orku á smánarverði eins og virkjunarflokkarnir hafa verið að gera í áratugi. Ef við fellum ríkisstjórnina og stöndum vel að myndun nýrrar rennur upp nýr og bjartari dagur fyrir okkur. Þá verða gæsirnar í okkar búri og við skiptum gullinu bróðurlega á milli okkar.Þá mun stirna á framtíðarlandið. Með kveðjum til allra frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online