Tuesday, February 13, 2007

 

Sátt.

Enn hefur Véfréttin hafið upp raust sína. Hún vill þjóðarsátt um að virkja sem nemur svona eins og 2 Kárahnjúkavirkjunum. Svo má athuga málið árið 2010. Látum hana virkja miguna úr sjálfri sér. Þannig fást svona u.þ.b. 2 millivött sem er nokkurnveginn í samræmi við fylgi þessa nýja foringja framsóknarmanna. Það er nákvæmlega sama aðferðafræðin í álæðinu og áður. Fyrst er skotið og svo er spurt. Nú á að fara að hanna virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár. Enginn hefur spurt landeigendur eða íbúa sveitarfélaganna sem hlut eiga að máli. Ríksstjórnin þjösnast áfram líkt og naut í flagi. Samt er vitað að efasemdarmenn eru í þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna. Sigríður Anna Þórðardóttir kom mér t.d. mjög á óvart þegar hún lýsti því yfir að rétt væri að doka við. Okkur lægi ekkert á. Orkuverðið myndi hækka á næstu árum. Þróunin er líka ör í tækninni. M.a. í djúpborunum og þróun á nýjum skautum fyrir álverksmiðjur. Það á auðvitað að blása öll áform um frekari stóriðju burt af borðinu. Strax. En núverandi stjórnarherrar eru áfram sannfærðir um að þeir séu á réttri leið. Þeir munu aldrei sjá að þeir eru rammvilltir. Þessvegna skulum við losa okkur við þá ekki seinna en 12. maí n.k. Og látum fall þeirra verða mikið, hátt og afgerandi. Máltækið um að farið hafi fé betra á sannarlega vel við hér.
Við Raikonen erum snemma á fótum eins og flesta daga. Rólegt yfir veðrinu sem fer hlýnandi.Bryndís vinkona mín, veiðivörður í Veiðivötnum, hringdi í gær. Verð þar 2.-4. ágúst og svo sennilega aftur 12.-14. águst. Þá mun himbriminn kalla og hamingjan gróa. Fyrst með stóru strákunum mínum og síðan með kokkinum góða, konunni einu. Það er bókstaflega mannbætandi að dvelja þarna. Þú kemur ævinlega sáttur til baka. Góð veiði er að sjálfsögðu bónus en skiptir alls ekki öllu máli. Það er líka gott að koma heim aftur. Láta þreytuna líða úr sér. Þessa góðu þreytu sem fylgir þessum ferðum. Hvað sem pólitík, virkjanabrjálæðingum og hinnum nýju lénsherrum líður, hlakkar Hösmagi til komandi sumars. Ást hans á þessu landi og nálægðin við það er honum kær sem fyrr. Á leiðinni inní Veiðivötn er ekið fram hjá 4 virkjunum í Þjórsá. Það er alveg kappnóg.Sláum hinar 3 af strax. Látum tún og engi bænda í friði og eirum hinum strórbrotnu fossum árinnar. Það er búið að eyðileggja allt of mikið nú þegar.
Nýi teljarinn á blogginu mínu komst í gagnið í gær. Skáldið á heiðurinn af honum. Hösmagi er nú ekki beinlínis snillingur í svona fiffi. Takk fyrir þetta, Sölvi minn. Kærar kveðjur frá rauðhausunum, ykkar Hösmagi.

Comments:
Þetta eru slæmar fréttir. Við verðum hreinlega að koma þessu fólki frá.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online