Monday, February 05, 2007

 

Ný könnun.

Í Blaðinu í morgun, 6. febrúar, birtast niðurstöður úr könnun á fylgi flokka sem gerð var á laugardaginn var. Niðurstöðurnar eru athyglisverðar. Gleðilegar og sorglegar í senn. Svarhlutfall var 88% en 39% neituðu að svara. Samkvæmt þessu hrynur fylgið af frjálslynda flokknum. Það eru ákaflega góð tíðindi. Og það eru líka ánægjuleg tíðindi að Vinstri grænir fá 22,9% og eru þar með orðnir annar stærsti flokkurinn. Slæmu tíðindin eru að sjálfsögðu fylgi íhaldsins, 45,5% og framsóknar 9,4%. Þetta þýðir bara að stjórnin heldur velli. Samfylkingin nær ekki vopnum sínum. Og það eru litlar líkur á að hún geri það ef ekkert verður að gert á þeim bæ. Það kann ekki góðri lukku að stýra að vera nánast án nokkurrar stefnu annarar en að komast til valda. Og ef örlar á stefnu þá er hún breytt daginn eftir. Hann virðist stundum vera erfiður uppdráttarsýkillinn. Mér hefur á stundum orðið tíðrætt um Sf. í þessum pistlum. Spár mínar virðast allar vera að ganga eftir. Því miður, liggur mér við að segja. Ef við vinstri menn uppskerum ekki nægilega og núverandi ríkisstjórn fær áfamhaldandi traust eru það sannarlega slæm tíðindi. Mikið af vatni á eftir að renna til sjávar fram að næstu kosningum. Og þetta er bara ein könnun af mörgum. Við skulum vona að breytingar verði á þann veg að ríkisstjórnin falli. Það er mikilvægast af öllu í komandi kosningum.
Eitt finnst mér athyglisvert í sambandi við greiningu á þessum könnunum. Það hefur sem sé komið í ljós að konur flýja Sf. í stórum stíl. Það er þó eini flokkurinn sem hefur konu sem formann. Kannski höfða hinar glæsilegu konur sem Vinstri grænir hafa valið til framboðs betur til þeirra. Ingibjörg Sólrún þarf að bretta upp ermar. Og losa sig við þráhyggjuna um að hún ein komi til greina sem forsætisráðherra ef ríkisstjórnin fellur. Kjósendur eru einfaldlega að undirstrika þetta þessa dagana.Flokkarnir sem kunna að fella þessa ríkisstjórn eiga ekki að útiloka neitt í þessu sambandi. Þar er ekkert sjálfgefið. Þó ég hafi að nokkru misst trúna á Ingibjörgu myndi ég aldrei setja mig upp á móti henni sem forsætisráðherra ef það yrði niðurstaða viðræðna eftir kosningar. Ég tel það hinsvegar afar ólíklegt eins og komið er fyrir flokknum nú. Ég er enn vongóður um að við berum gæfu til að koma þessari afleitu ríkisstjórn frá. Það bókstaflega verður að takast. Það eru bara rúmir 3 mánuðir í niðurstöðuna. Kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online