Wednesday, February 28, 2007

 

Launsátur.

Það hefur nú ávallt verið talið miður fallegt að vega menn úr launsátri. Mér hefur stundum dottið lögreglan í hug í þessu sambandi. Liggur í leyni og gómar mann svo fyrir að aka of hratt. Mér finnst þetta byrjun á öfugum enda. Farið aftan að hlutunum. Lögreglan á að vera sýnileg. Koma í veg fyrir afbrot. Ég vil efla umferðareftirlit á þjóðvegum landsins. Fjölga lögreglubílunum á vegunum sem víðast og oftast. Sýnileg löggæsla mun skila okkur miklu meiri árangri en feluleikurinn. Góð byrjun væri að leggja umferðarstofu niður. Þessa vitagagnslausu ríkisstofnun. Þar situr afdankað lið í fílabeinsturni og þylur sömu tugguna út í eitt. Hálkublettir á Dynjandisheiði og snjóþekja á Holtavörðuheiði. Við höfum blöðin, sjónvarpið og netið til að segja okkur þetta. Það myndu sparast miklir peningar með því að þagga niður þessa endalausu þvælu. Peninga, sem nota mætti til að efla umferðareftirlit og gera bragarbætur á verstu slysagildrunum. Umferðarstofa er skólabókardæmi um verstu tegund ríkissrekstrar. Hún er miklu verri en ekki neitt. Skilar engum árangri og er hreint tilræði við geðheilsu þjóðarinnar í ofanálag. Þar sitja menn í makindum sínum og eru áskrifendur að peningum úr ríkissjóði. Það ætti svo að verða fyrsta verkið að fjarlægja líktalningarmannvirkið fyrir ofan Draugahlíðina. Hugmyndasmiðurinn að þessari listasmíði þekkir ekki tilfinningar fólks sem á um sárt að binda eftir umferðarslys. Við skulum stöðva blaðrið og nota peningana í þarfari hluti. Ég fullyrði að það mun skila miklu betri árangri. Við skulum gera lögregluna sýnilega. Fólk gengur ekki viljandi í gin ljónsins. Innbotsþjófurinn hættir við ef hann veit að lögreglan er nærri. Það eru miklu meiri líkur á að við högum okkur skikkanlega í umferðinni ef löggæslan er vel sýnileg. Ég ek nú með beltið spennt. Svona yfirleitt. Ef misbrestur verður á því er ég fljótur til ef ég sé lögregluna álengdar. Umferðarlagabrot má ekki gera að tekjustofni fyrir ríkið. Það er miklu vænlegri leið að koma í veg fyrir þau áður en þau eru framin. Þá fækkar slysunum sjálfkrafa. Það er að sjálfsögðu til fólk sem telur sig yfir allar reglur hafið. Fer sínu fram. Þetta er ofbeldisliðið í umferðinni. Skeytir ekki um skömm né heiður. Hér er ég, farðu frá, helvítis bjáninn þinn. Við skulum taka þetta fólk úr umferð. Láta það gjalda fyrir frekjuna, ofbeldið og heimsku sína.
Það er gleðiefni að fyrstu 2 mánuði árisins varð ekkert banaslys í umferðinni. Ef við förum þessa leið er von til þess að við fáum miklu fleiri svona mánuði. Þessi tollur hefur verið stór undanfarin ár. Við skulum öll vera meðvituð í umferðinni. Þá eru betri líkur á að við náum árangri í baráttunni.

Ég fór austur í Mýrdal í gær. Á löglegum hraða. Þeir eru duglegir í lögreglunni á Hvolsvelli. Og sýnilegir eins og vera ber. Ég var að skoða jörð. Þegar ég gekk heim að bænum tóku á móti mér 2 vígalegir Schefferhundar. Þegar ég ávarpaði þá sáu þeir strax að ég var hættulaus. Fundu þelið og vinguðust við gestinn. Innandyra var húsfreyja. Þar voru 2 hundar til viðbótar. Og 3 kettir. Gestinum leiddist það ekki mjög. Svo var haldið að útihúsum. Naut, hross, endur og landnámshænsn. Þetta var indæl ferð og skemmtileg. Landið skartaði djásnum sínum í sól og kælu. Einn besti vinnudagur Hösmaga á árinu 2007. Að vinnudegi loknum heimsótti ég Hörð. Bifvélavirkjann snjalla , sem allan vanda leysir ef eitthvað bjátar á í bílum. Þann hinn sama og ég taldi forðum að hefði orðið afar snjall bílþjófur ef hann væri ekki svona stálheiðarlegur. Hann var snöggur að lagfæra það sem þurfti. Gott að eiga slíkan að fyrir bíladellukarl eins og undirritaðan. Ég sendi ykkur góðar kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online