Monday, February 12, 2007

 

Andskotans.

Það er víst ljótt að blóta. Ókristilegt athæfi í meira lagi. Mér verður þetta nú samt á annað slagið. Kannski kemst ég ekki inní himnaríki fyrir bragðið. En ég er líka bara venjulegur almúgasauður. Þræll bankanna í fullu starfi eins og þeir flestir.En svo eru menn eins og Steingrímur Sigfússon, formaður í flokki Vinstri grænna. Sannkristnir þingmenn eins og Guðjón Ólafur, Magnús Þór og fleiri halda því fram að þessi þingmaður bölvi og ragni í þinginu. Alveg finnst mér voðalegt að heyra þetta. Og einn hægri bloggarinn á moggablogginu, skátaforingi úr Heimdalli, fyrirmynd ungra drengja, spyr hvort nokkur kristinn maður geti kosið mann sem hefur bæði sagt andskotinn og helvíti. Nærri fjórðungur þjóðarinnar virðist, samkvæmt könnunum, samt ætla að gera það. Þar á meðal undirritaður. Það er kannski illa komið fyrir mönnum ef eina gagnrýnin á pólitíska andstæðinga felst í að benda á að þeir kunni að hafa blótað. Og sumt sem sagt hefur verið í þinginu gleymist ekki. Eða hefur einhver gleymt þingmanninum sem einu sinni sagði um annan þingmann að hann hefði skítlegt eðli? Mér hefur stundum dottið í hug í því sambandi að oft ratast kjöftugum satt á munn. Það hefur beinlínis sannast á þeim tíma sem liðinn er síðan þessi orð féllu. En þau sitja enn eins og steinbarn í hjörtum sumra manna. Við verðum samt að gæta orða okkar. Steingrímur verður líklega ekki skátaforingi úr þessu. Enda miklu betur kominn þar sem hann er nú. Gagnrýni á hann á þessum nótum mun engin áhrif hafa í komandi kosningum. Og það er auðvitað andskotans bömmer fyrir guðhrædda skátaforingja íhaldsins.

Nýjasta hjálpræði Jónínu Ben í hremmingum sínum er stólpípan. Hún segir meinhollt að fá sér í þannig pípu annað slagið. Gamalt máltæki segir að leiðin að hjarta mannsins liggi í gegnum magann. Einn moggabloggarinn umsnéri þessu um daginn og sagði að leiðin að pyngju mannsins lægi í gegn um rassgatið. Það er í raun yfirgengilegt hvað fólk getur gert að söluvöru. Nú er í tísku að losa sig við vonda vökva úr líkamanum með fótabaði. Rafskaut draga þá út. Jafnvel er hægt að reka út illa anda með þessu apparati. Sölumaðurinn var í sjónvarpinu um daginn. Eitthvað virkaði þetta nú illa í tilrauninni sem gerð var. En þá var bara að skipta út gamla rafskautinu og illu andarnir ættu sér engrar undankomu auðið. Gamla skautið orðið mettað af vessum og illum öndum.Og vessarnir vondu sem eru að plaga okkur myndu hverfa eins og dögg á sólríkum morgni. Og hætt er við að Jónína þurfi í fótabað eftir að Baugsfeðgar og allir hinir glæpamennirnir verða sýknaðir enn einu sinni. Og gott að fá sér í pípu líka. Það væri synd að segja að hvergi sé líf í tuskunum í íslensku þjóðfélagi nú um stundir. Hösmagi heldur sig enn við vindilinn. Ef honum tekst að hætta ósið þessum mun hann líka halda sig frá pípunni fínu. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online