Saturday, February 03, 2007

 

Getspeki.

Nú er HM í handbolta að klárast. Þetta verða úrslitin:

1. Þýskaland.
2. Pólland.
3. Frakkland.
4. Danmörk.
5. Króatía.
6. Rússland.
7. Spánn.
8. Ísland.

Þá vitið þið það og þurfið þessvegna ekki að horfa á leikina 4 sem eftir eru.

Þorri er nú u.þ.b. hálfnaður. Hefur hagað sér nokkuð skikkanlega og hitastigið verið að mestu yfir núllinu. Furðu rólegt yfir pólitíkinni þó ein og ein bomba sé að falla. Svona á stangli. Það nýjasta er að ekki mátti hrófla við starfsemi Byrgisins í Rockville af því það var svo góð auglýsing fyrir varnarliðið. Samt vissu a.m.k. sumir ráðherrar af öllu sukkinu og óreiðunni. Þeir afsaka sig með því að þetta hafi ekki tilheyrt þeirra ráðuneyti. Líklega verið allt í lagi úr því svo var. Að sjálfsögðu mátti ekki skyggja á sól varnarliðsins. Svo var keypt jörð fyrir á annað hundrað milljónir undir starfsemina. Og peningar streymdu áfram úr ríkissjóði til þessa góða máls. M.a. til að forstjórinn gæti endurnýjað Range Roverinn árlega.Og þegar spurt er um ábyrgð segir Véfréttin frá Bifröst að félagsmálaráðherra hafi "axlað ábyrgð". Hann hafi stöðvað greiðslur dýralæknisins til Byrgisins. Siðferði okkar íslendinga er afar sérstakt. Svo ekki sé meira sagt. Kannski kemur að því að við fáum dæmdan þjóf sem dómsmálaráðherra. Það væri í góðu samræmi við annað.
Samkvæmt nýjustu upplýsingum mun stækkun álversins í Straumsvík valda meiri mengun en allur núverandi bílafloti íslendinga. Verði af stækkuninni þarf að færa Keflavíkurveginn til. En Sturla ætlar að borga. Hvað er líka einn milljarður úr vasa okkar þegar stóriðja á í hlut ? Og svo er það Helguvík, Húsavík, Skagafjörður og Þorlákshöfn. Þar var nýlega farfugl frá Norsk Hydro. Og var tekið fagnandi. Og svo segir Véfréttin mikla að stóriðjustefnunni hafi verið mokað út af borðinu fyrir þremur árum. Það sem nú er verið að hugsa um myndi taka alla orku frá óvirkjuðu vatnsafli hér á landi. Orku, sem er nánast gefin en ekki seld. Enda engin von til að stjórnvöld upplýsi okkur um verðið þó við eigum nú Landsvirkjun enn.
Við þurfum að breyta um stefnu. Andi draugsins og nagarans svífa enn yfir vötnunum. Mannanna, sem mesta ábyrgð bera á óhæfuverkum undanfarinna 12 ára. Mannanna, sem afhentu vinum sínum ríkisbankana fyrir smáaura. Einnig símann. Og ef ekki verður breyting í stjórnarfarinu mun afgangurinn fara sömu leið. Það er löngu farið að undirbúa söluna á Landsvirkjun. M.a. var eitt skrefið stigið af fulltrúum afturgöngunnar og nagarans þegar hlutur Reykjavíkur var seldur til ríkisins. Fulltúar hinnar nýju stéttar eru í startholunum. Tilbúnir að taka á móti orkugeiranum eins og Bjarni Ármannsson sagði nýlega.
Kosningarnar í vor eru óvenjulega mikilvægar nú. Því miður er nú margt sem aldrei verður hægt að bæta fyrir. Og vinstri menn þurfa að slíðra sverð sín innbyrðis. Höggva sem aldrei fyrr í aðrar áttir.Vonandi eru okkur ekki allar bjargir bannaðar.
Bestu kveðjur og óskir frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online