Saturday, February 03, 2007

 

Elsku kusa mín....

komdu nú hérna og karaðu á mér nefið. Svo ég losni við kvefið. Veitti ekki af stórri kusu til að hjálpa uppá mig. Hundleiður á endalausu nefrennsli þannig að hver eldhúsrúllan af annari gengur til viðar. Kannski myndi þetta lagast ef ég hætti að reykja. Efast þó um það. En það myndi spara. Og loftið verða betra. Það eru nokkuð góðar og gildar ástæður til að hætta þessum ósið. Þessar viðjar sem vaninn skapar eru sterkar. Fyrst og fremst vantar þó ákvöðunina um að komast út úr kófinu. Kannski kemur hún bara allt í einu. Nú veit ég líka betur en áður hvernig skal fara að þessu.Í hremmingum fyrir jólin 2001 þegar annað lunga Hösmaga féll saman var reykingunum sjálfhætt. Svona á spítalanum allavega. Þetta var daginn fyrir Þorláksmessu. Svo liðu jólin og áramótin og ég saknaði tóbaksins furðulítið. Með mér á stofu voru 2 gamlir gaurar. Báðir höfðu fengið hjartaáfall og máttu ekki reykja. En þeir tuggðu og tuggðu. Einhverskonar nikótíntyggigúmmí. Stundum þegar manni leiðist er betra illt að gera en ekki neitt. Ég þáði jórturleður frá þessum ágætu gamlingjum. Ekki leið á löngu þar til löngunin í vindil blossaði upp á ný. Ég lét nú ekki undan. Komst heim á Þrettándanum. Og hélt áfram að tyggja. Þegar komið var fram í febrúar byrjaði ég að vorkenna sjálfum mér. Fannst að ég ætti bara verulega bágt. Ég sannfærði mig um að allir væru vondir við mig og svo væri ég í ástarsorg að auki. Ég ætti svo sannarlega skilið að fá mér vindil. Sem ég og gerði einhverntíma um miðjan mánuðinn. Sá fyrsti var mjög bragðvondur. En ég var fallinn. Sokkinn aftur á þrítugt djúpið. Síðan eru 5 ár liðin. Og mökkurinn enn nærri. Kannski kemur kusa bara og hjálpar mér við þetta. En það verður ekkert leður í spilinu. Það er bara annaðhvort eða í þessum efnum. Leðrið heldur fíkninni við.Eini munurinn er minni mengun. Smáplús þar, að vísu. Sama fíknin og svipuð fjárútlát. Ég ætla að hugleiða þessi mál. Hrapa ekki að ákvörðun sem kann að mistakast. Það er svo voða vont fyrir sálina. En fyrsta skrefið er hér með stigið. Þannig byrja allar góðar ferðir. Langar og stuttar.

Við Raikonen höfum báðir viðrað okkur í morgunkyrrðinni. Alhvít jörð á ný. Vinskapurinn svo mikill að vart er flóafriður hér við tölvuna. Hefur nú hent áður. Við sendum ykkur hlýjar kveðjur og vonum að þið kjósið ekki ríkisstjórnarflokkana í vor. Ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online