Thursday, February 15, 2007

 

Réttarfar.

Í gær stöðvaði dómari í Baugsmálinu saksóknarann í miðri setningu. Og moggabloggari einn á ekki orð yfir svívirðunni. Yfirheyrslum yfir ákærða Jóni Ásgeiri átti að ljúka um miðjan dag á miðvikudag. Vandlega er búið að skipuleggja yfirheyrslur og vitnaleiðslur í þessu máli. Það er búið að boða á annaðhundrað manns til vitnisburðar. Strax í upphafi er dagskráin í uppnámi. Saksóknarinn var sjálfur með í ráðum við skipulagninguna. En tekur ekkert tillit til hennar. Allt er þetta á sama veg. Eitt alsherjarklúður af hálfu ákværuvaldsins. Og ég fæ á tilfinninguna að lögfræðinni sé vikið til hliðar fyrir ákafanum um að sakfella hina ákærðu. Með hrikalegum tilkostnaði. Kannski eru hinir ákærðu allir sekir. En þeir eru saklausir uns sekt þeirra er sönnuð. Þessi regla gildir um þá eins og alla aðra sem ákærðir eru hér á landi. Það má ekki keyra þetta mál áfram á þráhyggjunni einni saman. Það er að verða öllum augljóst hvernig aðdragandinn var að þessu eilífðarmáli. Það á sér pólitískar rætur. Það kann ekki góðri lukku að stýra. Það ættu menn að hafa í huga áður en dómari er ásakaður um hlutdrægni. Við skulum vona að næsta kjörtímabil dugi til að fá botn í málið.

Í gær var umræða í þinginu um vaxtaokrið á Íslandi. Hún hélt áfram í Kastljósi sjónvarpsins. Þar var bankastjóri Landsbankans og Ögmundur þingmaður vinstri grænna. Ég er nú einn af viðskiptavinum þessa banka. Líklega mjög góður af því ég skulda þeim heilan helling. Og verð að sæta þeim kjörum sem stjórnendur bankans ákvarða einhliða. Sæta því að greiða 300% hærri vexti af íbúðarlánum mínum en t.d. norskur íbúðareigandi. Þetta er einföld staðreynd sem liggur fyrir. Mér er alveg sama hvernig Sigurjón bankastjóri þyrlar upp ryki til að reyna að sína fram á hvað Landsbankinn sé mikil góðgerðastofnun. Gróði bankanna samanlagt var yfir 200 milljarðar á síðasta ári. Það er nú nokkur upphæð þegar stjórnendur þeirra telja þá vera góðgerðastofnanir. Ég er ekki að kvarta yfir þjónustunni í mínum banka. Þar vinnur prýðisfólk. Ég er að tala um verðlagið á þjónustunni. Og ég er að tala um okurvextina. Því miður er búið að afnema okurlögin. Ef þau væru enn í gildi væri hægt að festa þetta lið upp. Liðið, sem misst hefur allt raunveruleikaskyn og fær Elton John til að spila undir dinnernum. Menn sem mæta í kastljós sjónvarpsins og skilja ekki einu sinni sjálfir að þeir eru rökþrota. Og munu aldrei gera það. Þetta er liðið sem núverandi ríkisstjórn hefur þjónað mjög dyggilega. Það er enn ein ástæðan til þess að skipta um stjórnendur landsins. Fyrir utan allar hinar. Látum ekki fara svona með okkur. Notum eina vopnið sem dugar. Kosningaréttinn. Með kveðjum úr vorveðri í Þorralok, ykkar Hösmagi, Hemi og Kimi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online