Monday, February 26, 2007

 

Della.

Það mun hafa verið kröftugt landsþingið hjá Vinstri grænum um s.l. helgi. Þar voru margar góðar ályktanir samþykktar. En aðrar arfavitlausar. Hvernig getur nokkrum manni dottið í hug að setja á stofn netlögreglu? Hver á að verða lögreglustjóri? Þetta er svo heimskulegt að ég nenni varla að tala um svona fáránlega dellu. Það er dapurlegt að þurfa að horfa uppá svona endemis rugl. Svo mun hafa verið ályktað um að lögfesta svokallaðan kynjakvóta í stjórnarskrá. Í stjórn fyrirtækja skulu vera jafnmargar konur og karlar. Sama á að gilda á alþingi. Ef menn halda að þetta sé skref í jafnréttisátt eru þeir á villigötum. Eigum við ekki fyrst að eyða launamisréttinu milli kynjanna í eitt skipti fyrir öll? Það er vel hægt. Góð byrjun væri að aflétta launaleyndinni nú þegar. Hafa síðan gott eftirlit með því að eftir hinum nýju reglum væri farið. Þetta yrði stórt skref í jafnréttisátt. Það er í sjálfu sér eftirsóknarvert að blanda kynjunum saman á alþingi og víðar. En það er nákvæmlega ekkert jafnrétti í því að það skuli vera nákvæmlega jafnt. Þingmenn eru 63. Kynin eru 2. Ef við hefðum hvorukynið með væri þetta auðveldara. 21 stykki þingmaður á hvern hóp. Ég er alveg viss um að jafnréttið væri alveg eins mikið með 40 konum og 23 körlum. Eða öfugt. Það hefur ýmislegt áunnist. Það hefði t.d. þótt algjörlega fáránlegt um miðja síðustu öld að karlar færu í fæðingarorlof. Nú þykir þetta sjálfsagt og eðlilegt. Foreldrarnir eru 2 þó konan gangi með barnið og fæði það í heiminn. Og eftir að þjóðfélagið breyttist og konan kom út á vinnumarkaðinn hafa líka orðið viðhorfsbreytingar í vinnunni á heimilinu sjálfu. Auðvitað er enn hellingur af karlrembum sem telja að konan sé óæðri vera. Skuli halda sig heima og á mottunni. Þegja og hlýða. En þeim mun fækka. Það miðar í áttina. Það er alltaf hætta á að í jafnréttisflokki eins og Vinstri grænir eru geti kappið stundum borið skynsemina ofurliði. Póltitískir andstæðingar flokksins velta sér nú upp úr þessum ályktunum. Ég hef þó enga trú á að þetta muni gera mikinn skaða. Menn geta líka kallað Steingrím Sigfússon þröngsýnan kommúnistaforingja fyrir mér. Andstæðingar flokksins eru bara hræddir og öfundsjúkir yfir þeim hljómgrunni sem hann fær meðal þjóðarinnar. Þessar ályktanir voru bara skönhedsfeiler. Umhverfissinnar láta þær ekki á sig fá. Vandræðagangur Samfylkingarinnar í Hafnarfirði sýnir að henni er ekki treystandi í umhverfismálum. Og Samfylkingin í Skagafirði og á Húsavík heimtar álver þar. Ég ætla að fyrirgefa Vinstri grænum þessa dellu. Reynslan mun líka sýna að þetta er einfaldlega ekki hægt. Errare humanum est.

Það er lognkæla hér núna. Indælt veður með dálitlu frosti. Við Raikonen vökum og hugsum um lífið og tilveruna. Líklega pælir nú kisi minn lítið í pólitíkinni. Lætur fóstra sinn um það. Báðir láta hverjum degi nægja sína þjáningu og taka því sem að höndum ber. Ég kíkti á landið mitt á sunnudaginn var. Þar var bjart og fallegt og það bíður vorsins eins og við öll. Birtunnar og gróandans sem fylgir komandi árstíma. Tilhlökkunin mikil að venju. Og kanski venju fremur.Jónsmessunótt með konu sem hefur hitað handklæðið á sjálfri sér. Það verður gott eftir baðið uppúr dögg næturinnar. Bestu kveðjur til ykkar allra, í París, Kaupmannahöfn, og öðrum góðum stöðum, ykkar Hösmagi.

Comments:
Þakka kveðjur og senda mínar á móti, meðstjórnandinn
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online