Sunday, January 08, 2006

 

Örflaga.

Kötturinn Raikonen hefur nú fengið örflögu í eyrað. Einskonar strikamerki sem auðvelt er að lesa. Vegalaus heimilisdýr hér á staðnum eru færð á dýraspítala sem er hér norðan ár. Þar lesa þeir af og hringja í eigandann. Bráðsniðugt. Og svo hefur verið komið í veg fyrir að kisi minn góður fjölgi sér. Hann liggur nú hér endilangur á borðinu og lygnir aftur glyrnum sínum. Stálhress.

Það verða kosningar hér í vor eins og annarsstaðar. Það er eiginlega ömurlegt fyrir gamlan, innfæddan Selfyssing að flestir kostir í kosningunum eru slæmir. Hér situr nú ein ömurlegasta bæjarstjórn á landinu. Gjörsamlega höfuðlaus her. Og árangurinn eftir því. Voða ánægðir með 16 hæða turnana sem nokkrum snillingum datt í hug að byggja við brúarsporðinn. Þetta eru 4 samfylkingarmenn og 3 frammarar. Íhaldið hefur svo 2 fulltrúa. Það ætti sannarlega að vera lag fyrir vinstri græna að bjóða fram góða menn. Þó mér sé í nöp við núverandi bæjarstjórn vil ég nú ekki kalla þá ógæfu yfir íbúana hér að fá Eyþór Arnalds sem bæjarstjóra. Þeir eru að vísu fleiri sem þykjast útvaldir til forystu. Skólamaður að norðan sem hefur átt erfitt uppdráttar í eigin flokki og svo fyrrum yfirútfararstjóri Kaupfélags Árnesinga. Þegar komið var að skuldadögum hjá KÁ var útfararstjórinn að vísu flúinn frá borði. Eins og hinar rotturnar þegar skipið sekkur.Von mín er sú að vinstri grænir nái góðum árangri og myndi meirihluta með Samfylkingunni. Gæti best trúað að hægt yrði að koma vitinu fyrir kratagreyin með öflugu aðhaldi frá vinstri. Skipulags- og umhverfismál þarf að taka hér föstum tökum. Slysin hér eru nú þegar orðin alltof mörg. Nefni 3 dæmi. Hótelið, þessi óskaplegi óskapnaður sem nú hefur teygt sig nær alveg að kirkjudyrunum. Svartur skítahaugur sem minnir á fangabúðir úr breskum bíómyndum frá 1950. Jafnaldrar mínir, lýðveldistrén í Tryggvagarði, voru höggvin burt svo klastra mætti viðbót við gamla barnaskólann minn til norðurs. Áður hafði verið byggt lágreist fjós við hann til suðurs. Og gamli hóllinn við Arnberg var að hálfu sprengdur í loft upp. Og tilgangurinn? Ný bensínstöð mafíunnar sem lítur út eins og geimstöð úr Startrek. Þessir vesalingar sem hafa stjórnað þessu bæjarfélagi undanfarin ár hafa nákvæmlega engan metnað af neinu tagi. Kannski er ég viðkvæmari fyrir þessum hlutum af því ég er fæddur hér á árbakkanum. Þar sem hótelið stendur nú. Hugsanlega við barinn á neðri hæðinni. Ég ætla að vona að nýtt fólk komi að stjórn þessa sveitarfélags eftir næstu kosningar. Ekki gamlir útfarastjórar. Og ekki heldur músikalskir fallkandidatar sem ekki var hægt að nota í Reykjavík.Ég vona að Selfoss og litlu þorpin við ströndina megi halda einhverju eftir fyrir ágangi skyjaglópanna. Sé að vísu ekki eftir gamla sláturhúsinu sem íhaldið plantaði niður í miðju þorpi fyrir margt löngu. Þó illskárra en hugmynd snillinganna hvort sem þeir eru frá Apaplánetunni eða Vestmannaeyjum.Sæl að sinni, krúttin mín, ykkar einlægur Hösmagi.

Comments:
Ju, blessadur sjalfur, kruttid mitt, og til hamingju med glaesikerruna.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online