Friday, January 13, 2006

 

Að þjóna sannleikanum.

Jónas hefur sagt af sér. Hálfdapurlegur endir hjá þessum ágæta penna. En það er auðvitað miklu dapurlegra að stór hópur fólks virðist tilbúinn að kaupa sorprit á borð við DV. Ég hef ekki mikla trú á að DV breytist mikið við afsögn Jónasar. Það mun halda áfram að velta sér upp úr drullunni. Þjóna sannleikanum. Stórasannleika.Meðan til er fólk sem nærist á óförum náungans mun svona rit seljast. Fólk sem bíður eftir að heyra eitthvað misjafnt um Jón og Gunnu. Fólkið sem aldrei les Halldór Laxness. Og þessi hópur mun verða til áfram. Því miður. Einu sinni voru hjón hér á Selfossi sem ævinlega gengu til náða um kvöldmatarleytið á laugardögum. Stilltu vekjaraklukkuna á hálf tvö. Fóru á fætur og héldu á bíl sínum að skemmtistöðunum á staðnum. Komu sér fyrir og fylgdust með liðinu koma út. Kannski var einhver von að þau sæu Helga fara heim með Gunnu sem var gift Jóni. Það yrði dásamlegt að geta smjattað á því með sunnudagssteikinni. Þetta fólk kaupir örugglega DV. Líklega miklu sjúkara sjálft en blessað fólkið sem DV er að fjalla um alla daga. Það er auðvitað ákaflega leiðinlegt að Jónas skuli enda ferilinn með þessum hætti. Óvægin þjóðfélagsgagnrýni hans mun þó lifa. Hér á árum áður var hann slyngur með pennann. Ég dáðist oft að leiðurunum sem hann skrifaði þá. Greypti á ýmsum kýlum og það sveið undan. Svona svipað og Magnús Kjartansson. Þessvegna er þetta leiðinlegur endir. Að ljúka störfum útataður í eigin drullu. Nóg um það að sinni.
Sjöþúsundasti Árborgarinn fæddist í fyrradag. Mynd af þessum unga Eyrbekkingi í fangi bæjarstjórans á sudurland.is. Litla gamla þorpið mitt að verða að bæ. Þenst út til allra átta. Og ekkert bendir til annars en að þessi þróun haldi áfram. Við þurfum bara nýja bæjarstjórn. Best væri að núverandi bæjarfulltrúar fengju allir hvíldina. Þó ekki þessa endanlegu. En þeir eru allir voðalega brattir með sig. Ánægðir með afrek sín og snilldarverk. Og alltaf er verið að breyta skipulaginu í ráðhúsinu. Skipurit á skipurit ofan. Samt er ekki hægt að fá einföldustu upplýsingar. Nema þá með harmkvælum eftir dúk og disk. Yfirstjórn bæjarins lítur ekki á sig sem þjóna íbúanna. Miklu frekar sem drottnara. En þetta eru bara valdasjúkir aumingjar í skipulögðu kaosi. Fari þeir allir í fúlan rass eins og Hannes.
Kattatríó leikur nú í stofunni hjá mér. Það eru þeir Raikonen, Baltasar Kormákur og Pési. Úti er myrkur og kyrrð. Fiskihrellir sötrar kaffi yfir blogginu og hefur það bara nokkuð gott. Gott að eiga 2 frídaga í rólegheitum og geta pælt örlítið í tilverunni. Bestu kveðjur til ykkar allra, ykkar einlægur Hösmagi.

Comments:
Megi their allir uldnir rotna
aumingjarnir med hor.
Engum ferst vel ad deila og drottna
og daema um annars thor.
 
Nákaldur vindur næðir um torg og stræti
nóttin er þung og dimm.
Kafrauðir draugar kunna sér ekki læti
kerlingin önug og grimm.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online