Monday, January 02, 2006

 

Olíumafían.

Gleðilegt nýár.Bensínið hækkaði í gær. Um eina krónu og fimmtíu aura. Nákvæmlega uppá eyri hjá stóru félögunum þremur. Þetta er aldeilis samkeppni. Búið að sekta þessa mafíu fyrir samráð. En sektirnar renna ekki til þeirra sem brotið var á. Ríkissjóður fékk aurana til að greiða með baunkunum og símanum. Og til að hækka kaupið hjá Dóra og félögum. Þeir sem stolið var frá fá að sjálfsögðu ekkert. Enginn veit með vissu hve mikla peninga þessi mafía hafði af almenningi með þessum ólögmætu aðgerðum. Og það eru félögin sem eru sektuð. Hvað með mennina sem stóðu fyrir þessum stórfellda þjófnaði? Þeir eru auðvitað stikkfrí. Í fyrra var manngarmur dæmdur í mánaðar fangelsi fyrir að hnupla einu kjötlæri. En stórþjófarnir eru ósnertanlegir. Auðvitað á að ákæra þessa fugla. Félag hefur engan sjálfstæðan vilja. Ekki er hægt að dæma félag í tugthús. En forstjórarnir hefðu sannarlega gott af að skreppa austur á Eyrarbakka. Og dvelja þar innandyra um stund. Engin hætta á að fjölskyldur þeirra færu á vonarvöl á meðan. Í tugthúsið með þessa andskota því þar eru þeir vel geymdir.

Nýja árið gekk í garð með smásnjókomu. Og miklum sprengingum. Svo miklum að svifmengun var 1800 míkrógrömm í rúmmetra. Heilbrigðismörkin eru 50 mikrógrömm. Og skátagreyin í Hveragerði kveiktu óvart í öllu galleríinu innanhúss. Áttu fótum fjör að launa. En við viljum brauð og leiki áfram. Og ljósadýrðin er vissulega mikil og falleg. Árið byrjaði vel á vinnustað. Mér tókst að selja 2 hús á fyrsta vinnudegi ársins. Hress og ferskur eftir góð áramót með vini mínum Raikonen. Hann hélt sig reyndar að mestu undir rúminu þegar skothríðin var í hámarki. Leikur nú aftur við hverja kló sína. Einhvernveginn hef á á tilfinningunni að þetta verði mér gott ár eins og það nýliðna. Vonandi verður það þannig fyrir sem allra flesta. Það smábirtir og fyrr en varir gerir veiðihugurinn vart við sig. Vissara að vera duglegur að klára birgðirnar frá síðasta ári.Ekki þýðir að safna þessu ljúfmeti upp í stórum stíl. Og dóttla hafði orð á því við mig jólin að koma með í veiði. Sannfærður um að hún yrði ekki hótinu skárri en bræður hennar ef hún kynntist fílingunni við að "vera meðann á". Sjáum hvað setur. Undirritaður var nú farinn að nálgast þrítugt þegar hann veiddi fyrsta laxinn. Margir silungar lágu þá í valnum. Og það hefur sýnt sig að kvenfólkið getur ánetjast þessari indælu dellu ekki síður en pungrotturnar. Voðalegt orð pungrotta. En við verðum víst að sitja uppi með þetta karlagreyin. Með bestu óskum héðan úr næturkyrrðinni, ykkar alltaf síeinlægi Hösmagi.

Comments:
Gleðilegt ár og Happy Hogmanay eins og sagt er hér um slóðir. Ég veit nú ekki betur en að við sonur þinn yngri reyndum að draga Beggu upp í Veiðivötnin um árið en þá hafði hún efasemdir um veiðieðlið í sér. Mega nú fiskarnir vara sig ef enn einn bætist út í á af Laxaspillisniðjum. Og þá getur nú listakokkurinn Berglind aldeilis boðið í veislur!
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online