Friday, January 06, 2006

 

Djúpu lægðirnar.

Það blæs og rignir. Sem betur fer er hitastigið nokkrar gráður yfir núllinu. Annars væri hér blindbylur. Lægðirnar koma eins og af færibandi hver af annari. Kannski svona dæmigert haustveður sem verður að teljast viðunandi í janúar. Lægðirnar minna mig á gamla og góða vísu sem einu sinni fyrir margt löngu var ort um þau Jón Eyþórsson og Theresíu Guðmundsdóttur, sem bæði voru veðurstofustjórar. Höfundurinn er held ég örugglega Egill Jónsson, kenndur við Húsavík.

Þar sem þau bauka bæði
er blautt og úrkomugnægð.
Hann er með háþrýstisvæði
en hún er með djúpa lægð.

Snilldarferskeytla. Ef einhverjum finnst eitthvað dónalegt hér á ferð er sá hinn sami bara dónalegur í hugsun. Þessi vísa er gott dæmi um hvað ferskeytlan getur verið skemmileg. Enda varð vísan strax landsfræg og lifir enn á vörum margra. Það er sem sagt blautt og úrkomugnægð hér nú um stundir. Var jafnvel að hugsa um Tangavatn í dag. Reikna þó tæplega með að úr verði.
Það varð lítið úr að ég rotaði jólin í gær. Sofnaði fyrir kvöldmat og vaknaði við gælur dýrsins ljúfa um eittleytið. Útsofinn að sjálfsögðu. Gerir ekkert til. Frí í fyrramálið og rólegheit heimavið. Svona í framhaldi af vísunni góðu ætla ég að segja ykkur smásögu af samskiptum mínum, bréflegum, við ónefnda frú. Við skrifuðumst á og margt var þar í hálfkæringi og hálfkveðnum vísum. Einu sinni sagði ég frúnni að ég væri á leið til Reykjavíkur að kaupa mér nýjar dýnur í rúmið mitt. Hún sagði að sig undraði það ekki. Áklæðið væri komið í öreindir sínar af mikilli notkun. Gaf svona ýmislegt í skyn um lífernið hér á bæ. Ég sendi henni strax þessa vísu.

Raunamædd er rekkjan mín
rifnar dýnur, það er að vonum.
Heldur betur það hefnir sín
að hamast svona á mörgum konum.

Frúin varð klossmát. Ekki vil ég halda því fram að vísan sé sama snilldin og vísan hans Egils. En ég var bara asskoti ánægður með hana samt. Svona smásól í allri rigningunni. Ég heyri að storminn hefur lægt. Raikonen úti í rannsóknarför. Og það dagar áður en við er litið.

Bráðum dagar, rósin rjóð,
rennur í burtu húmið.
Við skulum bara vera góð
og verma saman rúmið.

Bestu kveðjur, ykkar einlægur Hösmagi.

Comments:
Allt er stillt i Eystrasalti;
undrid tho villt i nokkrum mod.
Sman og skitur gerd ad gjalti,
en gledin tryllt sem streymir i blod.

Fasa verdur flein ad kanna
forul stryta reist i disel.
Kuti lytur kaupum manna
kaert er lysi og hladin ny sel.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online