Saturday, January 28, 2006

 

Loft.

Hér er nú íslenskur vetur eins og ég vil hafa hann. Snjórinn að mestu horfinn og nánast vor í lofti. Bendir til áframhaldandi hlýinda og stutt í febrúar. Gott. Í einum af pistlum mínum í fyrra sagði ég frá gamla kommanum í Hveragerði sem eignaðist nýjan Rússajeppa. Hann fór með varadekkið inní stofu og hleypti úr því svo hann gæti teygað að sér hið heilnæma sovéska fjallaloft. Ekki flökraði nú að mér að gera þetta þegar ég eignaðist nýja jeppann minn. Finnst nú heldur ekki neitt sérlega vænt um þá Bush og Rumsfeld. Hef þó síður en svo nokkuð horn í síðu bandarísku þjóðarinnar svona almennt séð. En á föstudaginn kviknaði eitthvert ljós í mælaborðinu sem ég kunni ekki að meta. Þar stóð: Spare low pressure. Hvað er nú þetta? Velti þessu fyrir mér og komst að þeirri niðurstöðu að það væri of lágur þrýstingur á einhverju vara- eitthvað. Gekk samt rólegur til náða. En úr þessu varð að fást skorið. Og þá var auðvitað nærtækast að tala við Hörð. Yfirráðgjafa minn og sérfræðing í bílamálum. Ekki enn lagt fyrir hann neitt í slíkum málum sem hann hefur ekki getað leyst. Samanber þegar hann opnaði Grána á nótæm þegar Húdíníarnir hjá löggunni höfðu fullyrt að það væri ómögulegt. Okkur þótti reyndar báðum með ólíkindum að bíllinn kvartaði um of lítið loft í varadekkinu. En við létum á þetta reyna. Bættum tveim pundum við. Og viti menn, ljósið hvarf eins og dögg fyrir sólu. Tölvutæknin lætur sem sé ekki að sér hæða. Það svona jaðrar við að manni finnist þetta heldur og mikið af því góða. En það er auðvitað grábölvað að koma að loftlausu varadekki ef það springur á bílnum. Ég er svona rétt almennilega búinn að prófa vagninn. Held helst að kanarnir hafi ruglast eitthvað í ríminu og sett þotuhreyfil í bílinn. Menn hafa spurt mig hvað ég hafi við 330 hestöfl að gera. Ég hef svarað því til að þetta sé svona álíka og með koníakið. Mjög gott að eiga það þó ég noti ekki mikið af því. Tel þó að koníak sé bara meinhollt í hæfilegu magni. Gott að geta notað hestöflin þegar á þeim þarf að halda. Minn nýi Green Highlander segir sem sagt ekki ha þegar stigið er á bensíngjöfina. Veit alveg hvað honum ber að gera. Og þetta er sönn lífnautn manni með bíladellu, einkum og sér í lagi ef löggan er í hæfilegri fjarlægð. Hösmagi er alsæll með nýja bílinn sinn. Hlakkar til veiðiferða til fjalla í sumar. Skáldið á Gotlandi hafði áhyggjur af að þetta væri of fínn bíll til að hann fengist að láni. Ég hlakka líka til að sýna því nýja vagninn. Meðstjórnandinn í Hösmaga ehf hlýtur nú að fá einhver hlunnindi því kaupið er lágt. Bestu kveðjur til ykkar úr vorblíðunni, ykkar Hösmagi með elnandi bíladellu.

Comments:
Ansi finnst mer nu menn ordnir latir ad kommenta herna. Hvar er t.d. Springsteen addaandinn (thetta ord virkar furdulegt thegar islensku stafina vantar) thegar tidindi gerast? Er nokkud viss um ad hinn nykryndi luxusjeppaeigandi myndi raula eins og einn stuttan hljodfael af Freddy Mercury inn a bloggid ef lyfjafraedingurinn baedi um thad i kommenti. Eg hef nokkra reynslu af tonlistarsamstarfi vid Fiskihrelli, sem folst einkum i thvi ad eg spiladi rikk a rafmagnsgitar og undi söng hans undir. Thetta var allt skjalfest a band af gamla skolanum. Aetli su spola se enn til?
 
Ahhh, þetta er svona bíll sem hr. J.L.B. Matekoni fussar yfir - tölvubílar sem kvarta við minnsta tilefni...
 
Snjallt þetta með pípið. Vona nú samt að ég mígi ekki á mig ef vagninn gleymir sér og ég heyri ekkert píp.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online