Tuesday, January 24, 2006

 

Góði dátinn Cherokee.

Hláka og logn. Miðvikudagur og lífið gengur sinn gang. Flunkunýr Cherokee sestur að í bílskúrnum. Gráni mun þjóna öðrum framvegis. Örugglega dyggur þjónn nýs eiganda eins og hann var Hösmaga. Nýja glæsikerran er flöskugræn að lit. Með öllum búnaðinum sem Fiskihrellir var að útlista um daginn. 5,7 lítra V-8 Hemi vélin, skrið- og spólvörnin og allt hitt. Ekin 187 kílómetra. Og Hösmagi er sáttur með verk gærdagsins. Draumurinn orðinn að veruleika og þráhyggjan á braut. Og hann hefur lagt blátt bann við tóbaksnautn innanborðs í nýja vagninum. Ef SS langar í vindil verður hann að kveikja í honum í hæfilegri fjarlægð. Ég ætla nú samt ekki að hafa það eins og Árni Böðvarsson. Þegar ég bjó á Nýja Stúdentagarðinum í dentíð var Árni garðprófastur. Sem sannur sósíalisti átti hann austantjaldsbifreið. Tékkneskan Skóda. Honum fannst greinilega afar vænt um þennan kommavagn. Bíllinn var geymdur á stæðinu framan við húsið. Áður en Árni gekk til náða fór hann ævinlega út á stæðið til að huga að þessum dýrgrip sínum. Gekk í kringum hann og strauk honum blíðlega. Ekki sá ég hann mynnast við bílinn en best gæti ég trúað að hann hafi gert það. Og þetta var vel hirtur bíll. Ef skítablettur setti sig á bifreiðina var hann óðara strokinn burt. Ég ætla líka að hugsa vel um minn Grín Hælander. Skítur verður ekki liðinn. Bón og sápa ævinlega tiltæk. Smurolía og leðurfeiti. Krómgljái og lavander. Ég sótti bílinn seinnipartinn í gær. Ágætur dagur 24. Systir mín yngri átti afmæli. Það var eiginlega komið myrkur og líklega hefur enginn séð til mín er ég ók nýja vagninum heim. Ég hlakka til birtunnar í dag. Þá getur fólk séð Fiskihrelli á nýja bílum sínum. Dáðst að lögmanninum. Eða bara hneykslast svolítið. Hvorttveggja skemmtilegt. Annars á þessi bíll alls ekki að vera stöðutákn. Bara draumurinn sem rættist. Afburðagóður ferðavagn jafnt að sumri sem vetri. Og nú þarf ekki að skipta um bíl næstu árin. Sem sagt asskoti gott bara. Þeir Fiskihrellir, Laxaspillir, Urriðaskelfir og Raikonen biðja allir að heilsa, ykkar glaði og einlægi Hösmagi.

Comments:
Til hamingju med thetta. Medstjornendur fagna, bestu kvedjur, SBS
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online