Saturday, January 14, 2006

 

Sic transit...

gloria mundi. Enginn lottóvinningur í gærkvöldi. Og ég sem var alveg viss um að nú væri komið að mér. Vinningurinn gekk ekki út svo ég fæ bara meira þegar dregið verður næst. En kannski bregðast krosstrén aftur. Miði er möguleiki. Einn á móti 502.000 Raikonen með röndótt skott er nú sofnaður hér á borðinu. Ánægður að sjá fóstra sinn eftir rannsóknarleiðangra beggja. Hann hefur engar áhyggjur. Varðar lítið um lottó. Svolítill ylur, stroka eftir baki og eitthvað að éta er nóg fyrir lítið dýr.
Nafni minn kann ekki að meta kónginn. Voðalegt er að heyra þetta. Eða hvað? Líklega er bara skárra að hafa forseta en kóng. Þá er þó möguleiki á skiptum. Og minni hætta á úrkynjun. Kóngar og drottningar eru bara úrelt þing. Leifar frá fortíðinni. Lengst af vandamál að finna passandi maka. Minnir mig á spakleg orð gamals vinar. Hann var að tala um ákveðna ætt. Reyndar ætt konu sinnar. Og sagði: Þetta ríður allt hvað öðru og hvað undan öðru. Það verður auðvitað að hafa í huga að fátt er mikilvægara en að blanda rétt. Þessvegna er þetta kóngaslekti meira og minna í ólagi. Og ekki einu sinni punt að því. Sumir hafa voða gaman af að fylgjast með þessu. Lesa allt sem skrifað er um liðið. Ég er ósköp glaður yfir að pabbi var ekki kóngur.
Vetur lætur á sér kræla. Snjór yfir öllu og 7 stiga frost. Planið hér framan við blokkina leiðinlegt yfirferðar.Bóndadagur á föstudaginn. Tók forskot á sæluna í gær. Svið, súr lifrarpylsa, hrútspungar, hangikjöt, rófustappa og hvalur. Reyndar keypti ég örlitið af hákarli líka. Gleymdi hreinlega að smakka á honum. En þetta fór ágætlega í maga. Og þó var ekkert sterkara en kók notað til að renna þessu niður. Sennilega endar það þó svo að þessi siður leggst af. Unga fólkið vill frekar éta pitsur og hamborgara. Talar um skemmdan mat. Og kann ekki einu sinni að meta almennilegan ost. Komst í alveg skuggalega góðan ost í vikunni. Danskur að uppruna. Unga frúin á fasteignasölunni fussar og sveiar. Heldur fyrir nefið og kallar mig Sigga myglu. Ef hún sest inná kaffistofuna nota ég tækifærið og fæ mér bragð af þessu ljúfmeti. Man reyndar þá tíð að ég var á hennar aldri. Blöskraði alveg framferði mágs míns og fleiri er þeir úðuðu í sig gráðosti. Reiknaði fastlega með að þeir yrðu fárveikir af þessum óþverra. En þeir voru bara alveg bráðhressir áfram. Við skulum bara éta það sem okkur finnst gott og láta hitt eiga sig.
Frændi minn, Pjetur Hafstein Lárusson, kom hér við í gær. Fór brott harla glaður með Gleðileikinn í poka. Lofaði að beru skáldinu kveðju hans. Sæl að sinni, ykkar Hösmagi.

Comments:
Hef akvedid ad taka thessa kvedju til min og takka fyrir. Bolar annars nokkud a hemi-vidbot i vagn thann er Hosmagi festi a kaup i Pittsburg?
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online