Saturday, November 25, 2006

 

Friður og ró.

Hér ríkir friðsældin ein. Nánast logn og hitinn rétt undir núllinu. Rólegheit yfir okkur Raikonen. Hösmagi hefur hugleitt lífið og tilveruna í dag. Svona í einskonar nirvana. Það er ákaflega ljúft á laugardögum. Kannski er ástæðan sú að Hösmagi eignaðist sonarson s.l. nótt. Það er auðvitað mikið fagnaðarefni. Og hann mun örugglega halda til veiða með afa gamla þegar þar að kemur. Stráksi flýtti för sinni í heiminn dulítið. Mjög snjallt því afmæli um jólin eiga það til að týnast. Ég óska foreldrunum og bræðrum sérstaklega til hamingju. Og svo náttúrlega mér sjálfum og öðrum ættmennum hins unga sveins. Verður fjallmyndarlegur eins og hann á kyn til.
Ósjálfrátt fer maður að hugleiða hvernig heimurinn er þegar nýr afkomandi fæðist. Ungi maðurinn er þó örugglega heppinn með að hafa fæðst hér en ekki í Bagdad. Þrátt fyrir harða gagnrýni á stjórnarherrana hér þá tel ég nú að það sé gott til framtíðar að vera íslendingur. Enda munum við losa okkur við núverandi stjórnarherra eftir nokkra mánuði. Og þá verður framtíð unga mannsins enn bjartari. Hlakka til að sjá þig litli vinur. Mér kemur í hug vísa föður míns sæla þegar Siggi Þráinn fæddist. Fyrsta barnabarnið mitt og jafnframt fyrsta langafabarn Langa Sveins.

Fylgja skal þér farsældin
framtíðar á vegi.
Vertu í heiminn velkominn
vinur elskulegi.

Og vísan á jafnvel við nú eins og þá. Siggi minn hefur alltaf verið sérstaklega indæll. Og það verður þessi nýi þegn líka. Með kveðjum úr friðsældinni, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online