Wednesday, November 22, 2006

 

Upprisa.

Nú tíðkast að menn rísi upp. Eða séu reistir upp. Móri orðinn að vörumerki okkar í öðrum löndum og sauðnautið hvítþvegið af syndum sínum. Segiði svo að allt sé ómögulegt á þessu guðsvolaða skeri. Móri barst í tal í þinginu í gær. Jónína frambærilega og Dagný hin smáa voru sárar. Sumir voru með efasemdir um ágæti hins upprisna draugs. Ákaflega ósmekklegt sögðu meyjarnar. Og Björgvin hinn hugumstóri þingmaður okkar sunnlendinga, ráðherraefnið sjálft, talaði um glæstan feril Dóra Móra. Það eru semsagt fleiri en framsóknarmenn sem horfa til þessarar skæru sólar. Afrekin tala sínu máli. Báðir ríkisbankarnir farnir fyrir spottprís. Síminn sömuleiðis. Kvótakerfið heldur áfram að mala gull fyrir hina útvöldu. Skömm okkar eilíf fyrir staðfestuna í Írak. Vígreif þjóð þó vopnlaus sé. Og flokkur hins glæsta foringja gjörsamlega í rústum. Hreint alveg á rassgatinu. Þetta eru nú afrekin. Það er ekki að undra þó að sumir séu stoltir. Véfréttin frá Bifröst hlýtur að hafa verið fjarverandi af þingi í gær. Engin mærðarræða frá henni um foringjann mikla. Sem þóknaðist að gera hana að arftaka sínum. Mér kæmi ekki á óvart þó hún hafi verið að leita að hugsanlegu þingsæti. Voða leiðinlegt að þingsæti fylgdi ekki upphefðinni.Ráðherrastóllinn getur verið hættulega valtur. Og stór hætta á að einhver annar troði sér í hann eftir að búið er að kjósa. En svona fer stundum þegar fólk þekkir ekki sinn vitjunartíma. Meðan gildi draugsins ráða í þessum flokki eru honum allar bjargir bannaðar. Margra ára tæknileg mistök eru nú að draga hann til dauða.En það er mikil bót í máli að hann verður ákaflega fáum harmdauði. Á legsteininum gæti staðið eftirfarandi: Hér hvílir framsóknarflokkurinn sem gleymdi uppruna sínum og týndi markmiðum sínum. Tortímingaráráttan varð honum að aldurtila. Hann fær örugglega að hvíla í friði.

Hér verða kveikt jólaljós í dag. Undirrituðum finnst það nú nokkuð snemmt. En þau lýsa upp myrkrið svo hann er sáttur við þau. Einungis tæpur mánuður þar til daginn fer að lengja aftur. Stutt í nýja árið sem vonandi færir okkur öllum gleði og gæfu.Ég og litli ferfættlingurinn sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online