Sunday, November 26, 2006

 

Eftirlíkingar.

Enn hefur véfréttin hafið upp raust sína. Hér er ég. Bestur af öllum. Varist ódýrar eftirlíkingar. Kjölfestan, bjargið trausta. Sækjum inná miðjuna. Hér er guð almáttugur.
Þetta er nú alveg einstaklega gáfulegt. Og svo voru mistök að ráðast inní Írak. Kaninn var bara að ljúga aldrei þessu vant. Hvernig væri þá að viðurkenna þetta í verki? Taka okkur strax af listanum yfir þá vígfúsu. Þessum mannsparti hlýtur að vera það í lofa lagið. En auðvitað verður það ekki gert. Þetta eru bara mannalæti og fíflagangur. Framsóknarflokkurinn hefur ekkert breyst. Og þetta dæmalausa þvaður formannsins breytir engu. Það á að reyna að draga upp nýja mynd af þessu lifandi líki fyrir kosningarnar. Falska og vitlausa. Valdasýkin stjórnar ferðinni. Og eins og ég hef sagt áður í þessum pistlum verður ekkert til sparað á næstu mánuðum til að fegra myndina. Villa á sér heimildir og þykjast hafa vitkast. En verkin tala. Ef þessi nýi formaður heldur að hann geti blekkt fólk með þessum hætti þá vona ég að hann fari villur vegar. Það er blátt áfram ömurlegt að fylgjast með þessu sjónarspili. Almenningur, hinn venjulegi vinnandi maður, hefur fengið nóg nú þegar.
Ekkert væri farsælla íslenskri þjóð en jarðarför framsóknarflokksins eftir næstu kosningar. Og þá verður engin sorg heldur einungis fögnuður.

Og stóri bróðir er líka í vanda staddur. Annarskonar að vísu. Sómakært sjálfstæðisfólk er í vandræðum. Ekki síst hér í Suðurkjördæmi.Fjármálaráðherrann eins og annarlegt sprek. Vopnabróðirnn í 2. sætinu á þónokkra vini hér. En þó handhafar forsetavalds hafi strokið æruna eru nú ekki allir vissir um árangurinn. Það er nú ósköp einföld staðreynd að við getum ekki tekið aftur það sem við höfum gert. En sumir skilja það ekki. Mútuþægni, rangar skýrslugjafir og fjárdráttur í opinberu starfi hafa einfaldlega verið " leiðrétt". Og svo brosir Breiðbakur og botnar ekkert í ályktunum stórra hópa í Sjálfstæðisflokknum. Hér kem ég, fús til starfa, eins og sagt var einu sinni. Forystan veit ekkert hvað gera skal. Vandræðagangurinn flestum augljós. Það verður nefnilega ekki sleppt og haldið. Kakan ekki geymd og étin. Undirritaður hefur þó enga samúð með þessu liði. Kannski bara pínkulítil vorkunnsemi yfir ástandinu. Ég mun gráta þurrum tárum yfir komandi óförum sjálfstæðisflokksins.

Rauðgrani mættur. Kaffið uppurið. Indælisveður þó myrkrið grúfi enn yfir. Áframhaldandi hugleiðingar um tilveruna í dag. Kærar kveðjur, krúttin mín, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online