Tuesday, November 14, 2006

 

Tæknileg mistök.

Nú hafa fleiri tekið til máls. Viðundrið var í sjónvarpinu í gærkvöldi. Sama sagan og hjá Ísraelsmönnum. Tæknileg mistök. Þegar lögreglan stendur innbrotsþjóf að verki eru það líklega tæknileg mistök þjófsins. Sumir þjófar eru nefnilega ekki staðnir að verki. Og svo sagði þessi nýjasta véfrétt að margir hefðu gert mistök. Og enginn hefði tapað á mistökunum. Og það er breitt bakið á nýju véfréttinni. Eins gott fyrir hina sem sluppu. Hvernig væri nú að þeir væru nafngreindir? Það er náttúrlega ósanngjarnt í meira lagi að Breiðbakur þessi gjaldi saka annara manna. Ég held að Geir og hinir forustusauðir sjálfstæðisflokksins ættu að skoða þetta mál. Þeir sem sáu viðtalið í gærkvöldi kunna nú sumir að efast um iðrunina. Það er líka svo þrælsnúið að iðrast fyrir hönd annara. Þessara sem gerðu mistök án þess að vera staðnir að verki. Þurftu ekki að skila neinu til baka. Og fengu að gaula frjálsir þegar þeim þóknaðist.
Allt er þetta með ólíkindum. Mér segir nú svo hugur um að það muni standa í mörgum ærlegum sjálfstæðismönnum hér í kjördæminu að kjósa flokkinn sinn í vor. Þeir muni skila auðu, sitja heima eða einfaldlega kjósa aðra flokka. Hafi einhverntíma verið sýnikennsla í siðblindu þá var það viðtalið við þetta viðundur í gærkvöldi. Og ekkert lát á trausti Geirs og félaga. Dýralæknisins einnig. Eða hvað?

Kyrrð og kuldi. Sex gráðu frost. Fleiri ber verða ekki lesin á fyrirheitna landinu þetta árið. Landinu sem bíður eftir íslenska birkinu og öðrum trjátegundum. Púðanum og síðan Paradísarhöllinni. Ætlaði nú uppeftir eftir vinnu í gær. En það er orðið skuggsýnt klukkan 5 á þessum árstíma. Landið kvíðir ekki myrkri og kulda vetrarins. Lifir hann af. Það mun aftur anga af lyngi og hinni nýju skógrækt á næsta ári. Og líklegt að Hösmagi verði þar mikið á milli þess sem hann stritar fyrir kapitalistana og mundar Herconinn. Það er ljúf tilhugsun. Kærar kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments:
Ég er fyllilega sammála. Þetta er órtúlegt mál allt saman. Landið góða - sáum við ekki berjalyng þarna? Þú getur þá gróðursett tré á vorin og soðið sultur á haustin.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online