Tuesday, May 24, 2005

 

Vor ?

Mesti norðangarrinn genginn niður. Og hitastigið heldur hærra í morgun en undanfarna daga. Indælt að koma út í morgun. Lognið er gott. Og vorgolan reyndar líka. Gráni minn er nú í fyrsta sinn á verkstæði. Engin bilun reyndar en mér tókst að bakka utan í bjarg eitt mikið sem einhver snillingurinn kom fyrir í Hjallaseli í Breiðholti. Og af því Gráni er svo fínn ákvað ég að láta laga þessa rispu. Tuttuguþúsund krónum verð ég fátækari á eftir. En svona er að þykjast vera fínn maður. Virðulegur lögmaður og fasteignasali hlýtur að vera vel akandi. En það er líka ágætt að aka um á 13 ára gamalli japanskri pútu. Kannski er það bara snobb niður? Um síðustu helgi fór ég að finna einkennilega lykt í Grána. Þorði ekki annað en gá í skottið, en þar var ekkert lík. Ótrúlega megn ýldulykt sem ég botnaði ekkert í. En einhver skýring hlaut að vera á þessu. Og svo rak ég augun í veiðituðruna. Haldiði ekki að þar hafi verið rækjur frá því um hvítasunnu. Ógeðslegt. Kom þeim fyrir á viðeigandi stað og spreyjaði Grána allan með lavander. Vantaði bæði reykelsi og myrru. Mér dettur í hug saga af vini mínum sem er bölvaður prakkari. Einu sinni fyrir margt löngu vann hann á skrifstofu kaupfélagsins. Það var á meðan KÁ var og hét. Fjölmenn skrifstofa. Og allt í einu dettur honum afar kvikindislegt bragð í hug. Hann kom fyrir bita af hákarli inní ritvél eins starfsmannsinns. Fljótlega varð lykt á skrifstofunni. Nánast banvænn fnykur. Enginn kunni skýringu á þessu. Og það var skúrað. Og skúrað meira. Allt kom þó fyrir ekki. Lyktin vildi ekki hverfa. Starfsmaðurinn orðinn að taugahrúgu og fátt til ráða. Að lokum fjarlægði vinurinn hákarlinn. Gæti best trúað að hann hefði bara étið hann. Og smátt og smátt hvarf daunninn. Menn pældu lengi í þessum ósköpum. Sumir töldu bara að lyktin hefði alls ekki verið þessa heims. Og starfsmaðurinn taldi víst um tíma að lyktin stafaði frá honum sjálfum. En sumir eru bara svona. Hafa sérstakan húmor og eru með afar frjótt ímyndunarafl þegar hrekkir eru annarsvegar. Aldrei hefði mér dottið svonanokkuð í hug. Enda annálað góðmenni. Bestu kveðjur að sinni, Hösmagi, kátur og hress að morgni dags.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online