Monday, May 09, 2005

 

Draumarnir.

Góðan dag, góðir bloggarar. Það er stundum svo indælt að láta sig dreyma svolítið. Á morgunferðalaginu sá ég rauða bifreið. Glæsivagn á góðu verði. Aðeins rúmlega 5 milljónir. En hvað eru 5 milljónir fyrir draum. Líklega þónokkuð ef maður á þær ekki til. Svo ég læt mig bara dreyma áfram um þennan 330 hestafla vagn. Cherokee 2005, 5,7 lítra. Kannski endar þetta með því að ég verð að leita mér lækninga við bíladellunni. En það er eiginlega gott að vera með þessa dellu. Margar miklu verri dellur til. Það er aldrei að vita hvað gerist. Eða eins og sú gamla sagði við Sigurjón " eitinn": Sigurjón eitinn, það sem aldrei hefur komið fyrir áður getur alltaf komið fyrir aftur. Veiðileyfin verða sótt annað kvöld. 13 dagar í Ölfusá í sumar. Hún er nú óvenjulega falleg þessa dagana. Nánast silfurtær og hæfilega vatnsmikil. Sogið með yfirhöndina yfir Hvítá. Enn frost á hverri nóttu á hálendinu. Og reyndar hér líka. Hrím á litla Lansa í morgun. Spáir hægt hlýnandi veðri næstu daga. Hvítasunnan framundan sem þýðir aukafrídag. Alltaf gott að stytta vinnuvikuna. Kannski fer ég bara norður í land að sækja mér kött. Eða bara til að rifja upp gömul kynni af norðurlandi. Veðrið skiptir þó öllu. Best að halda sig heima við ef veðrið bregst. Í áætlun Óla Ket frá Laugarvatni í gamla daga var tekið fram að einungis væri farið í " færi og veðri" Ólafur var einn af nokkrum sem varð þjóðsagnapersóna í lifanda lífi. Virtist sígeðvondur en var í raun hinn ljúfasti karl. Hann hafði bara þann stíl að vera hranalegur. Var greiðvikinn og hafði prýðilegan húmor. Og það er góður kostur í fari hvers manns. Enda þótti okkur menntskælingum vænt um karlinn. Ef hann átti í deilum við yfirvöld stóðum við að sjálfsögðu með honum. Nokkur ár síðan hann yfirgaf táradalinn, þá á tíræðisaldri. Karlar eins og Ólafur, og reyndar kerlingar líka, auðga tilveruna.

Þann 27. mars s.l. voru 10 ár liðin frá fæðingu kattarins kæra, Hösmaga, hins eina og sanna,

Viðsjárverð þykir mér glyrnan gul
geymir á bak við sig marga dul,
óargadýranna eðli grimmt
á sér í heilanum fylgsni dimmt.

Alla tíð var þó með okkur vel,
einlægt mér veittist þitt hugarþel,
síðan ég forðum þig blindan bar,
breiddi á þig sæng þegar kaldast var.

Fimm voru systkinin fædd í heim,
fagnar þú degi hið eina af þeim;
hinum var öllum í æsku drekkt,
ósköp er kattlífið dapurlegt.

Lifað nú hefur þú árið eitt,
oddhvöss er vígtönnin, klóin beitt;
stundum á kvöldin með kurteis hljóð
kveðurðu af munni fram ástaljóð.

Andvakan þykir mér yfrið löng
uns ég í garðinum heyri söng,
hugurinn glaðnar þá heldur til,
hlægir mig dillandi raddarspil.

Til munu þeir sem tónverk líst
tilkomulítið, en eitt er víst;
læðan sem kúrir á leyndum stað
leggur við eyrun að hlusta á það.

Mjúkur, með kyrfileg kampahár
kemurðu að dyrum í morgunsár,
upp þig úr munnvatni allan þværð,
augunum lygnir í sæld og værð.

Ólundin margsinnis úr mér rauk
er ég um kverk þér og vanga strauk,
ekki er mér kunnugt um annð tal
álika sefandi og kattarmal.

Trýnið þitt starfar og titrar kvikt,
tekst því að skynja svo marga lykt,
þar sem mér ekki með allt mitt nef
unnt er að greina hinn minnsta þef.

Bugðast af listfengi loðið skott,
lyftist með tign er þú gengur brott;
aldrei fær mannkindin aftanverð
á við þig jafnast að sundurgerð.

Greinilega hefur Jóni Helgasyni ekki verið illa við ketti. Við lesturinn rifjast upp ýmislegt skemmtilegt. Kettir eru sjálfstæðir, fara sínar eigin götur, og þegar þeir hafa fengið nægju sína að éta bjóða þeir öllum byrginn. Líklega nokkuð tækifærissinnaðir. Erum við það ekki sum líka?

Með bestu kveðju til ykkar allra, Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online