Monday, May 30, 2005

 

Svo sem lítið.

Dásemdarlogn. Síðasta maíbloggið. Svo kemur júní. Verð líklega að skrópa í brúðkaupi þann 25. Sveinn bróðursonur minn að ganga í hnapphelduna. En þetta er fyrsti laxveiðidagur minn í sumar. Fékk maðkatínsluleyfi hjá góðri vinkonu minni í gær. Sagt er að ánamaðkar séu próteinríkir og hin hollasta fæða. En hversvegna skyldu þeir vera kallaðir ánamaðkar? Kannski eru þeir bara svona miklir aular. En ég las í Roðskinnu að skýringin er allt önnur. Það var maður á árbakkanum að beita maðki. Þegar því var lokið kastaði hann út í ána og sagði um leið: Í ána, maðkur. Svona varð nú nafnið til. Einu sinni veiddi ég í 2 sumur í röð án þess að nota ánamaðk sem beitu. Gekk reyndar ágætlega. En það er þreytandi að kasta spún eða túpu allan daginn. Ég byrjaði því aftur með maðkinn. Og ég fann fljótt hvað það getur verið óhemjuskemmtilegt. Þegar maður verður var við að rjálað er við maðkinn fer hjartað að slá hraðar. Hvað skyldi djöfsi ætla sér? Er hann bara að stríða mér? Á ég að láta hann eiga sig? Eða á ég að rykkja í hann? Ég bíð yfirleitt rólegur og læt fiskinn um þetta. Og oftar en ekki rennir hann þessari próteinríku fæðu niður í maga. Og þar með hefur hann yfirleitt tapað orustunni. En það er eiginlega sama hvaða agn notað er. Ef hægt er að lokka laxinn á öngulinn er tilganginum náð. Dagarnir líða og fyrr en varir stend ég á árbakkanum fullur vongleði og eftirvæntingar. Sannarlega tilhlökkunarefni. Eða eins og gamli maðurinn orðaði það:

Meðan hamingjan ríkir og holdið rís
er heimurinn sannkölluð Paradís.

Hösmagi, hress sem ess.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online