Tuesday, May 17, 2005

 

Fegurð og kuldi.

Góðan dag góðir hálsar. Geysifallegt veður og sól hátt á lofti. En samt er nú hitastigið mínus 4°. Og kominn 18. maí. Gott að koma aftur inní hlýjuna efir morgunrannsóknirnar. Mikil blessun heita vatnið sem við eigum. Undirritaður vann í 10 sumur við að leita að heitu vatni fyrir landsmenn. Til sjávar og sveita. Þetta var gott starf. Langur vinnutími og mikil ferðalög um landið. Fórum oft Sprengisand eða Kjöl ef við áttum leið norður. Sáum því mikið af landinu og það var gaman að kynnast fólkinu í byggðum þess. Oftast vorum við aufúsugestir. "Blessaðir mennirnir, sem vildu veita birtu og yl í mannanna híbýli". En það kom líka fyrir að við þóttum tortryggilegir með tól okkar og tæki. Jafnvel heyrðum við talað um " þessa andskota að sunnan". En það var undantekning. Flestir voru gapandi af virðingu fyrir þessum vísindamönnum sem fundu heitt vatn undir mold og grjóti. Tæknin við þessa vatnsleit byggðist á viðnámsmælingum. Heita bergið leiðir rafmagn miklu betur en það kalda. Eftir að mágur minn staðsetti borholu norður í Aðaldal og upp kom mikið af heitu vatni varð hann þjóðhetja þar um slóðir. Ef við áttum leið um Aðaldalinn, renndum við ætið heim að Hafralæk. Þar var tekið á móti þessum höfðingum með kaffi og Johnny Walker. Og þegar við vorum að störfum þarna voru stanslaus veisluhöld. M.a. mikið af frábærlega góðu hangikjöti. Gaman að rifja upp þessa tíma nú.Kominn á sjötugsaldurinn en þó bráðungur enn að mér finnst. Það var afar fátítt að aðrir en raunvísindanemar fengju störf við þessa hluti. En ég og Jónas Gústavsson, júristar, vorum undantekningin. Og báðir flokksstjórar. Mér þótti ákaflega gott að heyra dr. Guðmund Pálmason, forstöðumann jarðhitadeildar segja að við værum báðir bara fjandi seigir við þetta. Guðmundur var einstakur maður. Eðlisfræðingur og doktor í hálfleiðurum. Skrifaði mikið um jarðhitarannsóknir og var einn af merkari vísindamönnum þjóðarinnar. Hann var líka frábær skákmaður og ég er viss um að hann hefði orðið einn af sterkustu skákmönnum heims ef hann hefði helgað sig skákinni. Hann sýndi oft frábær tilþrif við skákborðið og lagði margan stórmeistarann að velli. Hann var fæddur 1928 og lést úr krabbameini fyrir 2 árum. Minnist hans alltaf með þakklæti og virðingu.Ég kynntist mjög mörgum raunvísandamönnum á þessum árum þó ég væri eiginlega annarlegt sprek í þessari veröld. Hefði vel getað hugsað mér að verða jarðfræðingur en lenti bara í lagadeildinni. Var annarlegt sprek þar líka vegna skoðana minna í pólitíkinni. Þá var lagadeildin útungunarstöð ungra og upprennandi pólitíkusa á hægri vængnum.Lögfræðin var bara þrep í þessum stiga. Og reyndar talvert af stigamönnum þarna. Ég eignaðist þó góða kunningja með þessar skoðanir. Og ég held að við eigum ekki að velja okkur vini eftir pólitískum skoðunum. Menn geta nefnilega verið ágætir þó þeir séu með afleitar stjórnmálaskoðanir. Og svona í lokin. Hvernig er með MS, frú Hatseput og hitt liðið? Er engin von til þess að Eyjólfur fari að hressast? Heyrumst og sjáumst, Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online