Sunday, May 29, 2005

 

Eftirskrift.

Það vantaði aðeins á bloggið mitt í gær. Datt það svona allt í einu í hug. Lyfjabyrlarinn sagði að betra væri að kalla sig þjóðernishyggjukomma en Ólakomma. Og það er kannski alveg rétt. Það voru nefnilega til tvennskonar kommar í gamla daga. Alvöru kommar og gerfikommar. Óli kommi var aldrei kommi. Enda kallaður Óli krati þegar hann var á Laugarvatni. Silkiþrykk af Stalín og fleira fínerí dugar skammt. En ég ætla að segja ykkur frá raunverulegum kommum hér austan Hellisheiðar í gamla daga. Einhverntíma uppúr 1950 kom hér rússneskt knattspyrnulið, líklega Dynamó Kiev. Tveir alvörukommar hér á Selfossi fréttu þetta. Vissu varla hvernig fótbolti leit út. En þeir urðu bókstaflega að komast til Reykjavíkur að sjá þessa menn. Sálarheill þeirra að veði. Og að sjálfsögðu var þeim báðum ekið á leikinn í Reykjavík. Þegar þeir komu til baka höfðu þeir ekki hugmynd um úrslit leiksins. En þeir höfðu séð sína menn. Ekta Sovétmenni. Og svo var það alvörukomminn í Hveragerði. Þegar fyrstu rússajepparnir komu til Íslands 1956 vaknaði áköf löngun hjá þessum ágæta komma að eignast slíkan vagn. En þá var nú allt háð leyfum. Vinstristjórn var nýtekin við völdum og einhvernveginn tókst karlinum að útvega sér leyfi til að mega kaupa svona stríðsvagn. Hann hélt glaður til Reykjavíkur að sækja vígtólið. Og austur aftur.Strax og hann renndi í hlað vatt hann sér út úr jeppanum, kippti varadekkinu með sér inn og hélt til stofu. Lokaði vandlega öllum gluggum og hurðum og hleypti loftinu úr dekkinu. Drakk svo í sig hið Sovéska fjallaloft sem streymdi út. Og hélt því fram að þetta hefði stórbætt heilsuna.Þetta voru sannir kommar. Hlustuðu aldrei á þvætting og níð Moggans um Stalín og félaga. Þeir eru nú allir horfnir og spurnig hvort þeir eru uppi eða niðri. Kannski í kommúnu Péturs? Sæl að sinni, Hösmagi, heitur sem fyrr.

Comments:
Hahaha. Þetta var skemmtilegt.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online