Wednesday, May 25, 2005

 

Enn af krötum.

Eftir fund Samfylkingarinnar um daginn fékk nýi formaðurinn að koma í sjónvarpið. Svo sem eðlilegt miðað við venjuna. Ýmsar spurningar voru lagðar fyrir hinn nýja formann. M.a. um keppinautinn Össur. Lofaði honum ráðherrastól í nýrri stjórn sinni þegar þar að kæmi. Og svo ætlar hún líka að halda áfram að þekkja hann. Fara í afmæli dætranna og fleira. En þegar kom að spurningum um stefnu flokksins varð færra um svör. Svo sem við mátti búast. Þetta stefnulausa rekald er að "róta sig". Auðvitað algjörlega vonlaust að hafa stefnu meðan ræturnar eru enn að fálma eftir fótfestu. Bara að komast til valda og veiða stóra og feita bita upp úr kötlunum eins og siður krata hefur verið alla tíð. Sagan sannar þetta. Ef horft er til viðreisnaráranna, sem reyndar voru engin viðreisnarár, þá sést vel að aðaláhugamál kratanna voru feit embætti handa broddum þeirra. Þeir hafa löngum þakkað sjálfum sér uppbyggingu velferðarkerfisins og annars þess skásta í íslensku samfélagi. Þetta er þó ekki annað en fölsun. Það er fyrst og fremst róttækt baráttufólk sem á heiðurinn af velferðarkerfinu og ýmsu öðru sem hefur áunnist með miklum fórnum fátækasta hluta þjóðfélagsins. Þegar Vilmundur Gylfason barnaði Valgerði, dóttur Bjarna Ben, varð honum að orði: Alls staðar koma kratarnir sínum að. Rataðist þar satt á munn. Ég er reyndar sannfærður um að þegar fram í sækir munu vinstri menn átta sig. Yfirgefa þetta stefnulausa rekald og fylkja sér um raunverulega róttæka umhverfis og velferðarstefnu eina flokksins sem hefur þau stefnumið í alvöru. Undirritaður hefur aldrei verið í stjórnmálaflokki. Hefur þó alltaf verið róttækur. Og umhverfissinnaður. Eftir langan starfsferil hjá Orkustofnun er undirritaður lika virkjunarsinni. Þetta fer ágætlega saman. En það er ekki sama á hvern hátt er virkjað. Kárahnjúkavirkjun er mesta umhverfisslys í okkar sögu. Þegar íslenskir umhverfisvinir fóru til Noregs að kynna almenningi þar hvað Norsk Hydro hyggðist fyrir, kölluðu forustumenn SF á austurlandi þetta fólk landráðamenn. Menn eins og Einar Sigurðsson og Smári Geirsson. Sumir eru líka tilbúnir að fórna sálu sinni fyrir baunadisk. Fólk getur kallað mig þröngsýnan þjóðernishyggjukomma. Ég tek það bara sem hól. En ég vona að ég verði aldrei vændur um að vera krati. Bless í bili. Hösmagi, herskár í morgunsárið.

Comments:
Ég ætlaði eitthvað að fara að vera með hnýtingar, eitthvað svona um að Fiskihrellir væri nú bara farinn að predika, já, næstum eins og þingmaður, en þetta er þörf og góð umræða, og ansi skemmtileg bara, gott ef ekki heilmikið til í þessu líka, og hananú!
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online