Sunday, May 01, 2005

 

Öreigar allra landa......

sameinist. Einhvernveginn er 1. maí eiginlega kulnaður út. Lítið um kröfugöngur og fólk jafnvel hætt að gæða sér á kaffi og pönnukökum. Engin spjöld og bara allt fútt úr þessu öllu. Tíbráin í Síberíu var óvenjumikil í dag. Brá mér í leiðangur á litla Lanca. Hluti mýrarinnar milli Selfoss og Eyrarbakka hefur lengi verið nefndur Síbería. Vegurinn virtist allur undir vatni. Og húsin á Eyrarbakka iðuðu í skinninu. Eða öllu heldur bárujárninu. Líkt og rugluð mynd á sjónvarpsskjá. Ég geri mér oft ferð niður á strönd. Gott að þefa af sjónum. Loftinu og þanginu. Frá Bakkanum hélt ég að ósum Ölfusár. Þar var einn maður að veiðum. Og tíbráin enn á veginum niður í Þorlákshöfn. Þar bættist við unaðsleg lykt af fiskimjöli. Fannst alveg sérstaklega notalegt að finna þessa lykt. Minnti mig á Siglufjörð sumarið 1959. Þá þrælaði undirritaður í Rauðku í nokkra daga. Ákaflega góð lífsreynsla fyrir 15 ára Selfyssing. Þessa daga nærðist ég einungis á vínarbrauðum, mjólk og síldarméli. Kjarngott en ekki mjög lystugt. Unnið var frá 7 að morgni til miðnættis. Stúaði 100 kg mjölsekkjum. Og það var þreyttur ungur mað sem sofnaði í öllum fötum á kvöldin. Haugdrullugur og lyktandi af méli. En þetta var bara unaðslegt. Vildi ekki hafa misst af því. Reyndar vann ég stundum 27 og hálfa klukkustund á sólarhring nokkrum árum síðar. Það leika nú ekki margir eftir. En svona var nú dugnaðurinn og eljan í den tíð. Nú drullast maður bara í þessa 8 klukkutíma 5 daga vikunnar. Og stundum búinn að fá alveg nóg. Nú er Leiðindakvöldum með Gísla Marteini að ljúka. Sá að nafni minn í Svíþjóð kallaði þættina þessu nafni. Óskaplega leiðinlegur Vökustaur þessi GM. Ef ég væri ekki svona mikill bindindismaður myndi ég drekka mig alveg blindfullan á laugardaginn þegar leiðindakvöldum lýkur. En það má auðvitað líka drekkja sorgum sínum. Líkt og Björn Þorsteinsson skákmaður. Hann tefldi í mörgum skákmótum. Að móti loknu fór hann ævinlega á mikið fyllerí. Þegar vel gekk drakk hann til að fagna. Og ef illa gekk drekkti hann sorgum sínum. Blessað áfengið hefur lengi verið til margra hluta nytsamlegt. Ég sendi bestu kveðjur til allra, Berlínargesta sérstaklega. Hlýtur að vera fallegt á Unter den Linden.

Við brunninn bak við hliðið
stóð blómskreytt linditré.
Í forsælu þess fann ég
svo friðsælt draumavé.......


Ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online