Monday, May 16, 2005

 

Enn meiri háðung.

Undirritaður ritaði hér smástúf um daginn um háðungina. Læstur útí kuldanum og varalykillinn læstur inní bílskúrnum. Fór þó allt vel. En ófarir mínar ríða ekki við einteyming. Skömmu fyrir hádegi fékk ég hugljómun um að halda til veiða í Tangavatni. Samdi við sjálfan mig um að mega fara á jeppanum góða. Var fljótur að bruna þessa 62 km, greiddi mitt veiðileyfi og hélt vonglaður að vatninu. Steig út úr bifreiðinni, opnaði afturdyrnar, fór í stígvél og úlpu, og teygði mig í rækjur og veiðistöng. Lokaði dyrunum. Mundi þá eftir vindlunum mínum sem eru jafnómissindi við veiðiskap og endranær. En þá dundi ógæfan yfir. Allar hurðir bifreiðarinnar harðlæstar. Lykillinn í kveikjulásnum, nestið mitt, síminn og allt heila hafurtaskið. Ég bölvaði nú ekki upphátt. Sagði bara í huganum; Djöfulsins bömmer.Fór samt að veiða. Og að sjálfsögðu gekk það ekkert. Hugarástandið sá til þess. Að lokum gafst ég upp og gekk til bæjar. Húsráðendur tóku mér vel. Buðu í kaffi og þessi stóri vandi var ræddur. Ég sagði að líklega yrðu þau bara að taka mig í fóstur. Þau eru að vísu yngri en ég en tóku þessu þó ekki víðsfjarri. Lofuðu mér að hringja í minn aðalbílavitring, Hörð Óskarsson. Hann var þá staddur í Borgarnesi á suðurleið.Gat lítið gert úr þeim stað. Að lokum var það afráðið að frúin skyldi aka mér til Selfoss. Og það vildi svo undarlega til að 3ji lykilinn að íbúðinni var í vasa mínum. Fyrir einskæra tilviljun. Líklega það sem kallað er lán í óláni. Ég treysti mér ekki til að ráðast á Grána minn með qbein að vopni. Verð líklega að fara með bænirnar mínar. En það er von á Herði. Legg allt mitt traust á hann. Talaði um að fá lánaðar græjur hjá löggunni. Hinsvegar eru þessir bandarísku nútímavagnar þannig að erfitt er að komast inn í þá án lykils. Karlhólkurinn sem seldi mér þennan eðalvagn var búinn að týna varalyklinum. Reyndar ágætur karl og ætlaði að fara með jeppann og láta skanna inn rétta sort af nýjum lykli. Þegar ég hringdi í hann var hann staddur í Barselóna. Lofaði enn að bæta úr skák en það leysir að sjálfsögðu ekki þennan vanda. Mér er reyndar hulin ráðgáta hvernig þetta mátti gerast. Hef oftast skilið lykilinn eftir í bílnum á nóttunni þegar hann er læstur inní skúrnum. Held að það sé full langsótt að kenna Hannesi og Rumsfeld um þetta. Eða Dóra og Davíð. Þeir eru þó til alls vísir eins og alkunna er. Í ólund minni tókst mér þó að skúra svefnherbergið, baðið og forstofuna. Heilmikið afrek út af fyrir sig. Ætla ekki að hafa Grána á beit þarna við Heklurætur til eilífðarnóns. Leggst nú á bæn. Amen. Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online