Wednesday, May 11, 2005

 

Dásemdir júlímánaðar.

Það söng í Herconinum í gjarkvöld. Þegar undirritaður birtist aftur heima hjá sér með slatta af veiðidögum. Laxaspillir og Fiskihrellir sannarlega í báðum essunum sínum. Lördag for lykke. Veiði hefst laugardag 25. júní. Og aftur 30. júní. Og þá er nú stutt í júlí. 2., 3., 6., 7., 8., 10, 11., 16., 20., 27., 28., og 29. Og hinn rómaði 3ja Herconstangadagur er 16. júlí. Verst að vinnan á eftir að trufla dásemdirnar. En kapitalistarnir fara sínu fram. Stilla okkur upp við vegg eins og þeim þóknast. Er þó ekkert að kvarta og hlakka bara óhemjumikið til þessarar indælu iðju.Það hlýnar hægt á ísaköldu landi. Reyndar 5° í morgun og sólin kominn hátt á loft. Styttist í Hvítasunnuna og ekki ólíklegt að Herconinn bogni aðeins. Og líklega væri líka þjóðráð að taka smátörn á ryki og skúmi. Reyni að magna mig upp í það. Og að öðru. Heldur að róast yfir fasteignamarkaðnum. Engar lækkanir þó fyrirsjáanlegar. Ég efast um að sú þróun sem hefur orðið á fasteignaverði hér á landi síðan í haust eigi sér nokkra hliðstæðu annarsstaðar. Ég keypti íbúðina mína í september í fyrra. Líklega á besta tíma því dansleikurinn var að byrja. Ég tel mig vera með höndina á púlsi markaðarinn og mér sýnist íbúðin hafa hækkað um u.þ.b. 18.500 kr. á hverjum einasta degi síðan. Það er ekki undarlegt þó slíkir hlutir gerist í íslensku þjóðfélagi nú um stundir. Og þó verðbólga sé nokkur er hún þó ekki nema brot af hækkun markaðarins. Við skulum bara vona að þetta endi ekki með ósköpum. Aldrei þessu vant horfði ég á nokkuð af umræðum frá eldhúsdeginum í fyrrakvöld. Fannst heldur dapurlegt að horfa uppá Davíð og Halldór með ánægjusvip í algjörum fílabeinsturni. Sannfærðir um eigið ágæti sem jafnan fyrr. Þó ég sé nú að mestu hættur að skipta mér af pólitíkinni svona dagsdaglega er mér það ljóst að það er þjóðarnauðsyn að gefa þessum mönnum frí frá valdastólunum. Vonandi ber þjóðin gæfu til þess í næstu þingkosningum. Það er eina vonin til þess að rangindin í þessu þjóðfélagi verði lagfærð. Kærar kvðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online