Thursday, August 16, 2007

 

Lasarus.

Hösmagi hefur verið í sama stíl undanfarið og þessi þekkta persóna. Var í vinnu í gær og dag fremur af vilja en mætti. Heimsótti doktor í gær og var í ólettuskoðun og myndatöku í morgun. Ákveðinn í að kveða þennan slendraug í kútinn. Held snemma undir sæng mína. Vona að morgundagurinn verði ljúfari og ég endurheimti hreysti mína. Nú er ágætis síðsumartíð. Enn norðangjóla en sólin yljar. Kannski er það líkamsástandið sem veldur því að mig langar ekki til veiða að sinni. Veit þó að vertíðinni er ekki alveg lokið.

Nú er unnið á fullu við að gera við bílskúrinn sem kveikt var í aðfaranótt mánudagsins. Árni sagði mér í gær að þegar hann var vakinn hafi hann verið viss um að kviknaði hafi í öðrum hvorum bílnum. En svo var nú ekki. Steinolíu var hellt á vesturgafl hússins og eldur borinn að. Vonandi vitnast hver þarna var að verki. Illt að hafa brennuvarga á kreiki í bæjarfélaginu.

Nú er verið að safna undirskriftum gegn skipulagstillögunni margumtöluðu. Í jólaguðspjallinu er sagt frá vitringunum þremur. Sem höfðu gull, reykelsi og mirru í fórum sínum. Við hérna í Árborg getum nú aldeilis státað af meiru. Við höfum hér 5 vitringa. Meirihlutann í bæjarstjórninni. Bókstaflega þrungna af mannviti. Þeir voru reyndar 7 í bæjarstjórn síðasta kjörtímabils. Þrír hurfu með vofeiflegum hætti í kosningunum. Í nokkra mánuði svömluðu hinir eftirlifandi í forarpyttinum sem þeir höfðu sjálfir búið til. Ættu að sjálfsögðu að vera þar enn. En það er gamla sagan. Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Það var nefnilega stórvitringur sem sá til þeirra og barg þeim. Yfirvitringurinn í núverandi bæjarstjórnarmeirihluta. Skarpvitur, heiðarlegur og ábyrgur. Algjör sérfræðingur í ábyrgri stjórnsýslu. Að eigin mati að minnsta kosti.Kannski eru þeir heldur ekki miklu fleiri. Hann mun að sjálfsögðu fá uppskeru í samræmi við sáninguna. Ég lýsi enn og aftur ábyrgð á hendur þessum skemmdarvargi. Ef þessi skipulagstillaga verður að veruleika í núverandi mynd sinni er búið að eyðileggja miðbæ Selfoss í eitt skipti fyrir öll. Við andófsmenn höfum ekkert á móti því að byggja upp nýjan miðbæ. Við viljum bara gera það á annan og miklu betri hátt. Ég hvet hvern einasta íbúa hér til að kynna sér málið ofan í kjölinn. Umferðarkaosið eitt ætti að duga. Fyrir utan allt hitt. Meira að segja er haft eftir arkitektum sem tóku þátt í samkeppni um nýja skipulagið að byggingamagnið sé helmingi of mikið. Það eru margir sem sífellt eru að reisa skýjaborgir. Við þurfum þær ekki í miðbæ Selfoss.



Kimi var hress þegar ég birtist eftir vinnu. Miklu hressari en fóstri hans. Við sendum ykkur bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online