Sunday, August 05, 2007

 

Heimkoma.

Allir komumst við heilir heim, feðgar og langfeðgar. Mér varð að ósk minni að Veiðivatnasvæðið var friðað fyrir óveðri veiðidagana okkar í þessari paradís. Gerðum góða ferð og veiddum ágæta fiska. Og það var ljúft fyrir Hösmaga gamla að hafa 2 afastráka með, auk sonanna tveggja. Himbriminn beið á Ónefndavatni. Kallaði til mín og ég veifaði honum á móti. Við vorum í skála við endann á Langavatni. Í gærmorgun drakk ég kaffið mitt í dyrunum. Reykingar bannaðar innandyra. Það voru 3 Himbrimar á vatninu. Fljótlega hóf einn sig til flugs og flaug yfir mig í svona 3ja metra fjarlægð. Held hann hafi brosað til mín í leiðinni. Hann hefur sennilega verið á leið til kærustunnar á stóra Fossvatni. Við gerðum víðreist milli vatna í þessari ferð. Veiddum i Rauða gígnum í Hraunvötnum. Litla Skálavatnsgíg, Ónýta og Ónefndavatni og brugðum okkur í Snjóölduvatn. Þar setti skáldið í stóran urriða. Ég kom að í því sem fiskurinn var í flæðarmálinu. Þar losnaði úr urriðanum. Ég kom löppunum fyrir hann og skáldið stökk á hann eins og eldflaug. Ég sá fiskinn fljúga í loftinu eina 15-20 metra uppá land. Þar var hann rotaður og reyndist stærsti fiskur veiðitúrsins, 2,7 kg að þyngd. Líklega skrepp ég einn skottúr inneftir seinna í mánuðinum. Það er eiginlega áskorun frá stóra urriðanum í Ónefndavatni. Þessu vatni sem stundum hefur komið manni svo skemmtilega á óvart. Það státar nú af að hafa gefið stærsta urriðann af Veiðivatnasvæðinu í sumar. Hann var 5,8 kg að þyngd. Að venju yfirgáfum við Veiðivötnin sáttir. Það er alltaf indælt að koma heim. Raikonen hafði yfirgefið íbúðina og lítið orðið vart við kauða. Ég lagði mig nú fljótlega eftir að skáldið hélt með móður sinni til Reykjavíkur. Vaknaði um kvöldmatarleitið og kláraði að taka dótið úr grænu þrumunni. Hélt að Ölfusá og kíkti í veiðibókina. 177 laxar á landi. Það skásta í mörg ár. Endurnýjaði bensínbirgðirnar hjá olíumafíunni og hélt heimleiðis. Enginn köttur. Ég vaknaði snemma að venju og kveikti undir kaffinu. Klukkan 5 heyrði ég mjálm. Og viti menn. Rauðhaus og rauðskotti vælandi utan við gluggann. Þegar hann hafði fullvissað sig um að þetta væri fóstri mættur heim á ný kom hann inn um dyrnar. Beint í rækjurnar. Afganginn af lúxusrækjunni sem hafði verið beita í Veiðivötnum. Sefur nú úr sér þreytuna eftir langt útstáelsi.
Það er ósköp notalegt að vera í fríi í dag og sjá fram á annan frídag á morgun. Síðan byrjar brauðstritið á þriðjudag. Ágætt út af fyrir sig. Hösmagi er sem sagt ákaflega sáttur við tilveruna. Gott veiðisumar, góð heilsa og rólyndi hugans ætíð til staðar. Það er helst að rót komi á hugann þegar hugsað er til meirihluta bæjarstjórnarinnar. Ég legg til að limir hans verði sendir í geðrannsókn ekki seinna en strax. Ég hugsa reyndar að geðlæknar og sálfræðingar stæðu gersamlega á gati ef þeir fengju þetta lið til athugunar.

Norðangjóla og nokkuð svalt. Gott að skríða aftur undir dúnsængina. Og ekki verra að Kimi sefur hinumegin í rúminu. Við sendum ykkur bestu kveðjur á þessum vindasama sunnudegi. Ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online