Sunday, August 12, 2007

 

Draumalandið......

bíður eftir mér. Ég fékk ekki veiðileyfi í Ölfusá um helgina. Við græna þruman erum á leið í Veiðivötn í dag. Þetta er afmælisdagur móður minnar sælu. Reyndist oft drjúgur í gamla daga ef á átti veiðileyfi. Það sama gilti líka um afmælisdag föður míns, 27 júní. Fyrir nákvæmlega 3 árum kom ég í Veiðivötn eftir áralangt hlé. Þá var hitinn 26 gráður í forsælunni. Skáldið mitt var með mér og við veiddum vel þrátt fyrir þessa arfablíðu. Þetta var í fyrsta sinn sem við beittum rækju í Veiðivötnum. Hún hefur jafnan verið með í för síðan. Ég gisti innfrá næstu nótt og ætla að veiða til kl. 15 á morgun. Ónefndavatn verður í fyrirrúmi. Ef það gefur ekki er Snjóölduvatnið næst á eftir. Og bjartsýnin er til staðar sem fyrr. Sé stangartoppinn nú þegar beygjast hressilega. Það er ljúft að vera þarna í góðum félagsskap. En það getur líka verið gott að vera einn. Þessi sólarhringur innfrá verður fljótur að líða. Allt að verða klárt til farar. Smyr mér brauð í nesti og ríf svo í mig einn kjúkling eins og villidýr út í haga. Kaffi í fyrramálið svo þetta verður allt hið besta. Nú er hann í norðanáttinni og hér komst hitinn í rúm 19 stig í gær. Ég leit við í veiðihúsinu í morgun og nú hafa veiðst nákvæmlega 200 laxar úr Ölfusá í sumar. Það er nú bara nokkuð gott.
Raikonen verður einn heima þennan sólarhring. Bæti vel í skálar hans. Rækjur, þurrmatur og vatn að drekka. Hann gætir hússins en verður að sofa einn í nótt. Það verða örugglega fagnaðarfundir seinnipartinn á morgun. Eins og áður verður gott að koma heim. Ég ætla að leggja í hann svona um ellefuleitið. Held mig á löglegum hraða eins og stálheiðarlegir borgarar gera. Dimman vinnur á smátt og smátt en það er samt heilmikið af dásemdum sumarsins eftir. Hösmagi hlakkar verulega til dagsins. Við Kimi sendum öllum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online