Thursday, August 09, 2007

 

Vandamál......

eru til að leysa þau. Ég skrapp til Reykjavíkur með Herði í gær. Hörður er minn yfirbílfræðingur og allsherjar tutor í öllu er varðar bíla. Þetta er sá hinn sami og opnaði Grána forðum við Tangavatn. Og án kúbeins eins löggan hafði fullyrt að nota þyrfti.Lancerinn hafði verið með kúnstir. Stoppaði flesta morgna eftir að hafa gengið nokkra kílómetra. Þá var að bíða dálitla stund og lofa honum að hvíla sig. Hörður skipti um bensínsíuna um daginn. En Lanci hélt kúnstum sínum áfram. Hörður taldi böndin berast að kveikjunni. Við fengum notaða kveikju hjá Vöku í gær. Þegar hún var komin í neitaði sá blái algjörlega að fara í gang. Og það kom enginn neisti frá þessari nýju gömlu kveikju. En Hörður er ekki karakter sem gefst upp fyrir smámunum. Gerðist þögull en heilabúið hélt greinilega áfram að starfa. Ég sat eins og illa gerður hlutur og svældi vindla. Hugsaði með mér að þetta væri jafnónýtt drasl og það sem fyrir var. Kveikjan var tekin úr aftur. Galdrastafurinn á lofti og kveikjan sett í á ný. Eftir smástund malaði Lancerinn. Svona eins og Raikonen nýkominn inn úr hnusverki sínu utandyra. Hörður bætti sem sagt einu priki við. Fyrir margt löngu bilaði miðstöðin í Volvoinum mínum. Það var illt verk og tafsamt að skipta um miðstöð í þeim vagni. Talið meira en heilt dagsverk á verkstæði. Hörður stytti sér leið, tók mælaborðið meira og minna úr í heilu lagi og lauk verkinu á 3 tímum. Það er andskoti gott að þekkja svona mann. Ég fór í morgunrúnt á Lancernum og hann var í banastuði. Þurfti allt að því að halda aftur af honum eins og ólmum gæðingi. Ég hugsa að ég sé skárri í lögfræðinni en í bílaviðgerðum. Líklega eðlilegt miðað við námsferil. Hösmagi er andskoti hress í morgunsárið. Enn þungbúið og greinilega búið að rigna töluvert í nótt. Hitinn kominn í tæp 13 stig og fimmtudagur hefur heilsað. Herconinn orðinn óþolinmóður í bílskúrnum. Hann á eftir að svigna vel á laugardaginn.

Nú verður ágætt að halla sér í hálftíma. Brauðstrit framundan en helgin nálgast óðfluga. Vonandi með nýjum skemmtilegum ævintýrum. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online