Wednesday, August 08, 2007

 

Hversdagsleiki.

Gúrkutíðin er í algleymingi. Þokkalegur vinnudagur í gær eftir nokkra frídaga í röð. Nokkuð framundan í dag, Þorlákshöfn kl. 11 og Bláskógabyggð eftir hádegi. Ætla svo til höfðuðborgarinnar eftir vinnu að sækja nýja kveikju í Lancerinn. Ég er svo staðráðinn í að halda til fiskveiða á laugardag. Það er spáð ekta blíðu og annaðhvort læt ég duga að kíkja á elfuna góðu eða set í fluggírinn og skýst inní Veiðivötn. Einhvernveginn togar það nú meira í mig. Það er enn reytingsveiði í Ölfusá og nú eru laxarnir orðnir 190 talsins. Nokkrir góðir sjóbirtingar að auki svo við veiðimenn getum vel við unað. Ég er þó, eins og ég sagði síðast, sífellt við Ónefndavatn. Það er hrein lífsnautn að sjá stangarendann fara skyndilega á hreyfingu. Hvað er á enda línunnar? Hvað er hann þungur? Skyldi ég ná honum í land? Og nú er ég ekki smeykur við Snjóöldukvíslina lengur. Dálitið vatn í henni en botninn virðist öruggur. Það sem mikilvægast er þegar ekið er yfir kvíslarnar er að fara rólega. Þá er minni hætta á að þú fáir vatnið inná mótorinn. Líklega er áræðið orðið minna með aldrinum. Kannski ágætt því þá passarðu þig betur. Ég kallaði nú ekki allt ömmu mína í þessum efnum í gamla daga. En lukkan var ætíð með mér og ég slapp fyrir horn. Einu sinni kom ég að fljóti inná Sprengisandsleið seint að kvöldi. Þetta var Fjórðungskvíslin sem hafði vaxið skuggalega á sólbjörtum degi. Ég sá för út í ána og uppúr henni hinumegin. Setti í fyrsta gír í lága drifinu og ók svo útí. Uppúr komst ég hinumegin en ljósin á jeppanum voru komin á kaf og vatnið flæddi inn með hurðunum. Þetta myndi ég ekki reyna nú. Kaldi karlinn sem stjórnaði fyrir meira en 40 árum er nú búinn að missa kjarkinn. Það er bara allt í fínasta lagi.
Það er aðgerðalítið veðrið hér nú. Hitinn í 11 gráðum og þungbúið. Ósköp væri nú miklu skemmtilegra að halda til veiða en í vinnuna. Það er það versta við starfið hvað það truflar mann við þessa unaðslegu sumariðju. En ég verð víst að sjá fyrir okkur fóstursyninum. Fyrr ætla ég að svelta sjálfan mig en hann. Hann er svo sem ekki þungur í rekstri. Reykir ekki og smakkar ekki áfengi. Sem sagt regluketti hið mesta. Við sendum ykkur mið- og síðsumarkveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online