Wednesday, August 01, 2007

 

Veðrabrigði.

Það er smákæla og sól komin hátt á loft. Hann mun að líkindum hanga þurr í dag en svo spáir hann hvassri austanátt og mígandi rigningu á morgun. Það er grábölvað að veiða í roki. Kannski verður Veiðivatnasvæðið friðað fyrir óveðri á morgun. En það er nú ekki nýtt að það rigni um verslunarmannahelgina. Þessa helgi sem verslunarmenn vinna meira en aðrir. En bjartsýnn maður eins og undirritaður vonar það besta. Teningarnir verða meðferðis svona til öryggis. Allt að verða klárt til brottfarar. Það þarf að huga að mörgu þegar farið er til fjalla að veiða. Skáldið kemur úr bænum með móður sinni, Siggi kemur svo beint á Landróver afa síns sæla og Maggi og Eyþór koma frá Birtingaholti. Þrír jeppar undir 5 gaura ættu að duga. Vonandi verður fiskurinn svangur þegar við komum inneftir. Grimmur og gírugur.
Ég sá í gær að bæjarfulltrúi íhaldsins er farinn að vitna í blogg Hösmaga. Það er að sjálfsögðu ágætt. Þessi fráleita skipulagstillaga sem meirihlutinn samþykkti varðar hvern einasta íbúa Árborgar hvar í flokki sem hann stendur. Það ætti að vera aðalsmerki góðra bæjarstjórna að sameinast um að framkvæma vilja íbúanna. En núverandi meirihluti er ekki aldeilis á því. Hann felldi tillögu um að við fengjum að kjósa um þessa tillögu. Það er óumdeilanleg staðreynd. Það hefur nú aldrei þótt par fínt að vera talinn laumukommi. En fulltrúi VG virðist enn verri. Laumuframmari. Er hægt að komast neðar? Ef kosið yrði nú fengi VG sennilega 2 atkvæði. Yfirfábjánans og frúarinnar. Varla mikið meira en það. Enn og aftur lýsi ég algjöru vantrausti á þennan bæjarfulltrúa. Hann skrifaði grein í síðustu Dagskrá sem er þvílík þvæla að maður veltir því fyrir sér hvort geimvera hafi tekið sér bólfestu í honum. Og mér er óskiljanlegt hvers vegna þessi maður er ekki rekinn úr VG. Sagt er að fólk uppskeri eins og það sáir. Ég hef nú ætíð sagt að önnur lögmál gildi í bæjarstjórnarkosningum enn í landsmálapólitíkinni. Og ég hef fylgt stefnu VG í umhverfis-, utanríkis- og velferðarmálum. En úr því flokkurinn getur notast við núverandi bæjarfulltrúa sinn í Árborg hugsa ég minn gang. Svo mun örugglega um fleiri Árborgarbúa sem kusu VG síðast. Verði þessi tillaga að veruleika mun ég ekki kjósa VG framar. Það yrði saga til næsta bæjar ef ég neyddist til að kjósa íhaldið á gamals aldri. Nóg um þessi firn í bili.

Rauðhausarnir í Ástjörn 7 senda ykkur bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online