Tuesday, August 14, 2007

 

Vatnaskil.

Gamall veiðimaður skilaði sér úr Veiðivötnum í gær. Sáttur sem áður þó einhver andskotans pest hefði tekið sér bólfestu í honum. Búinn að sofa nánast látlaust í heilan sólarhring og er mun skárri. Hugurinn stefnir á að mæta til starfa í fyrramálið. Raikonen varla vikið frá mér eitt augnablik síðan ég kom heim. Ég veiddi svona vel í soðið. Snjóölduvatnið gaf þessa fiska en ég held helst að þeir stóru í Ónefndavatni hafi flutt búferlum á annan stað í vatninu. Um hádegisbilið í gær var sá gamli orðinn svo slappur að hann sofnaði með veiðistöngina í fanginu og svaf í klukkutíma. Og fiskarnir létu agnið alveg í friði. Ég tók hatt minn og staf og yfirgaf Ónefndavatn í síðasta sinn á árinu. Það verður kannað nánar á næsta ári. Kastaði kveðju á Bryndísi og Rúnar veiðiverði og hélt til byggða. Og græna þruman skilaði mér heim. Ég ók eiginlega í sparakstri alla leiðina. Og þegar ég kom á Selfoss sýndi tölvan bensíneyðslu uppá 12,4 lítra. Það er nú ekki há tala ef miðað er við að bifreiðin er 2,2 tonn að þyngd og hestöflin 330. Ég græddi svolítið á staðarorkunni. Verulegt hæðarfall úr veiðivötnum á Selfoss. Himbiminn var á Ónefndavatni. Kallaði til mín og ég heilsaði þessum tígulega fugli. Hann var greinilega á veiðum eins og ég. Munurinn á okkur var sá ég ég var bara að leika mér en hann í sinni lífsbaráttu. Hann hóf sig svo til flugs. Sennilega í leit að gjöfulli miðum.
Svo sá ég í fréttum sjónvarpsins í gærkvöld að kviknað hafði í bílskúrnum hjá Árna Vald. Mér brá illa við. Og enn verr vegna þess að sterkur grunur er um íkveikju. Þetta er að sjálfsögðu illskiljanlegt. Og vonandi tengist þetta ekki baráttu Árna gegn margnefndri skipulagstillögu um miðbæinn. En maður hugsar sitt. Og við skulum ekki gleyma því að hér er ekki bara um peningaleg verðmæti að ræða. Líf fólks gat verið í stórhættu. Ég vona svo sannarlega að málið upplýsist. Það er jafnmikilvægt fyrir anndstæðinga skipulagstillögunnar og fylgismenn hennar. Ég sendi vini mínum Árna bestu kveðjur og veit að hann lætur þetta ekki á sig fá. Mun áfram standa vígreifur í fylkingarbrjósti gegn ofbeldinu sem á að þvinga fram í nágrenni við heimili hans. Nóg um það að sinni.
Ég vona að ég vinni bug á þessum pestarsýkli af eigin rammleik. Fæ mér eina parkódín forte fyrir svefninn. Það leiðinlegasta af öllu leiðinlegu er að liggja veikur í bæli sínu. Og bjartsýnum mönnum verður oftar að ósk sinni en hinum. Við Kimi rauðskott sendum ykkur öllum bestu kveðjur úr norðangjólunni, ykkar Hösmagi.

Comments:
Já, bestu batakveðjur sömuleiðis á til ykkar félaganna.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online