Monday, August 06, 2007

 

Indæla.

Þetta er eiginlega nafnið á veðrinu núna. Sólin skín og blankalogn. Svona ágústdagur eins og þeir verða bestir. Kötturinn kominn í jafnvægi á ný og hnusar nú hér utandyra. Dagurinn í gær leið í algjöru letilífi. Nennti ekki einu sinni í bíltúr í rokinu. Ég svaf eiginlega lotusvefni í gær. Nokkrar lotur. Horfði á meirihlutann af formúlunni sem var nú lítið spennandi. Yfirleitt leiðinleg keppni á brautum þar sem framúrakstur er nánast útilokaður. Kimi Raikonen náði 2. sætinu á fíatinum sem komst nú í mark fyrir eitthvert kraftaverk. Nú hefur Bensinn ekkert bilað á þessu keppnistímabili svo mér finnst nú ekki spurning hver væri efstur að stigum ef Kimi hefði hann undir sér. Nú eru einungis 6 mót eftir og 20 stiga munur. En það er allt hægt ef lukkan er nálæg. Eldri sonurinn er aftur á leið í Veiðivötn í dag. Með nokkra skrautlega gaura með sér. Vona að þeir nái nú aðeins að bleyta færið, blesssaðir. Ég er ákveðinn í að finna dag í ágúst þar sem tryggt er að ég fái gott veður. Brenni inneftir á mettíma snemma morguns og kem svo bara heim að kvöldi. Ég er eiginlega sífellt staddur við Ónefndavatn horfandi á stangarendann. Sem skyndilega fer nánast alveg í vinkil. Sá stóri búinn að renna beitunni ofaní maga. Það mun gerast. Ekki nokkur vafi á því. A.m.k. trúir Hösmagi því og það dugar oftast. Þó er það svo að ég er ákaflega sáttur við veiðina í sumar. Bæði í Ölfusá og í nýliðnum Veiðivatnatúr. Fékk þar 5 fiska og meðalþyngdin um 3,5 pund. Við fuglarnir 5 munum svo halda á sömu mið að ári. Ég hafði ekki komið í Snjóölduvatn í meira en 20 ár. Þar kláruðum við Oddur málari koníakspelann 1983. Í hávaðaroki og koníakið rann ákaflega ljúflega niður. Því miður urðu ferðir okkar saman ekki margar. Oddur kynnti mig fyrir töfrum Veiðivatnasvæðisins og þegar ég fór þangað fyrst með honum hafði hann veitt þar í 27 sumur. Sumar ferðir hans þangað voru reyndar skrautlegar. Hann blótaði stundum Bakkus og sagði mér sögur af svaðilförum sínum. M.a. þegar hann lenti á sundi í Skyggnisvatni en komst í land með óútskýranlegum hætti. Ég hugsa hlýlega til gamla mannsins. Hann lést af veikindum sínum árið 1989, 74 ára gamall.

Ég ætla nú að fara og skola Veiðivatnarykið af grænu þrumunni. Þessum snilldarvagni sem ætið er eiganda sínum til yndis. Ég hélt að bensínið dygði varla niður að hálendismiðstöðinni. Þar er dropinn dýrari en annarsstaðar á landinu. En ég komst alla leið á Selfoss eftir tæplega 400 km akstur. Ég hefði m.a.s. komist til Reykjavíkur. Afbragðs ferðavagn og veiðibifreið.

Að lokum legg ég til að bæjarstjórnarmeirihlutinn segi af sér. Þá verður þó hægt að segja að hann hafi einu sinni hagað sér skynsamlega. Bestu kveðjur frá okkur rauðliðum, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online