Wednesday, December 06, 2006

 

Kyrrð.

Næturkyrrð. Smágjóla og 3ja gráðu frost. Mér heyrðist detta svartur ullarlagður í gær. Einhversstaðar nálægt Herconinum. Samkvæmt spá verður frostlaust um helgina. Kannski möguleiki á að sveigja stöngina aðeins.Stundum hefur hann nú gefið sig til í desember. Hösmagi er sem sé enn hinn sami að þessu leyti þó hann skammist út af bæjarpólitíkinni. Ætla að hlífa ykkur við meiru í bili. Og bæjarstjórninni líka.
Nú er einungis hálfur mánuður í vetrarsólhvörf. Þá kemur jólahátíðin. Þá éta margir yfir sig. Því miður eru líka margir sem kvíða þessum tíma. Undirritaður var nú í þeim hópi í nokkur ár. Nú hefur rólyndi hugans öll völd og kvíðinn að baki. Hösmagi hefur ástæðu til að hlakka sérstaklega til næsta árs.Fyrirheitna landið, veiðin og samveran við fólkið sem honum finnst vænt um. Og kannski sérstaklega eitt enn. Sem verður að vera leyndó í bili. Kannski það sem stundum er sagt um að sé of gott til að geta verið satt. En satt samt sem áður.
Ég frétti af konu sem ætlaði að fá Fljótandi heim að láni á bókasafni. Öll eintökin voru í útláni. Hún gekk inní næstu bókabúð og keypti bókina. Mér finnst að sjálfsögðu afar vænt um þetta. Eftir að hafa lesið þessa bók hef ég hugsað nokkru meira um ýmsar hliðar á tilveru okkar. Held að það sé öllum mjög hollt að gera það.Hösmagi er bara enn stoltari faðir en áður.
Jólaljósin lýsa nú upp myrkrið. Fallegi lampinn frá Edinborg í glugganum. Rifjar upp ljúfar minningar frá jólunum 2004. Með skáldinu mínu og Helgu. Haldreipi þess og heitkonu. Þá var undirritaður að stíga fyrstu sporin í blogggöngunni. Þetta var árið sem Þorláksmessa hvarf. Hösmagi reis svo upp frá dauðum um hádegi á aðfangadag. Skáldið sá til þess að líftóran héldist í honum eftir heiftarlega árás frá djöflaveiru heimsvaldasinnanna. Svo átum við læri með grænum baunum frá Ora. Töluðum, spiluðum 10.000 og nutum tilverunnar. Kannski voru það helstu mistökin að kaupa ekki skotapilsið. Hugsa að ég væri bara djöfull flottur í svoleiðis fati. Athuga það næst þegar ég verð á ferðinni í Princess Street.
Við Raikonen vökum og njótum tilverunnar hvor með öðrum. Flestir sofa enn. Bæjarstjórnarmenn einnig. Vona að þá dreymi eitthvað fallegt. Með bestu kveðjum, ykkar Hösmagi, hugsandi um ást, gleði og fögnuð.

Comments:
Þetta er fallegt!
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online