Friday, December 22, 2006

 

Ró.

Það er ró yfir öllu. Starfinu, veðrinu og sál Hösmaga. Áin aðeins að hægja ferðina. Er þó enn fimmfalt meiri en í meðalrennsli. Fór hæst í 2.358 rúmmetra. Í flóðinu 1968 reiknaði mágur minn út að sólarhringsrennslið hefði dugað til að brynna öllum beljum á Suðurlandi í 18.000 ár. Það er bara heilmikið vatn. Þetta er síðasti vinnudagur hér fyrir jól. Fiskihrellir forstjóri í fjarvistum eigendanna. Og Raikonen forstjóri í Ástjörn 7 í fjarvistum fóstra síns. Nú tekur daginn að lengja á ný. Birta þó heldur rýr í hlýindafasanaum. Og bloggganga Hösmaga er líka að lengjast.3ja árið að byrja. Enn sloppið við meiðyrðamál. Enda engin sérstök mannorðsmorð verið framin hér. Og lítið um klám. Minntist einu sinni á tippi og pjöllur á framboðslistum flokkanna fyrir bæjarstjórnarkosningarnar. Enn sömu skoðunar og þar kemur fram. Bloggið dregur dám af ýmsu. Atburðum líðandi stundar í póltíkinni, veiðiskapnum, skepnuskapnum, bíladellunni, kettinum mínum, þeim rauðbröndótta Dr. Raikonen og ýmsu öðru. Og eins og ég sagði í fyrradag þá má gera ráð fyrir að ég haldi mér við efnið. Veiðin, fyrirheitna landið og allt þetta indæla. Og einnig hið gagnstæða, draugsi, véfréttin og yfirnagarinn, sem nú reynir að stjórna úr musterinu. Sem sýnir best að hann hefur ekkert lært og fáu gleymt. Mikið andskoti er ég orðinn leiður á þessum blýantsnagara. Og er örugglega ekki einn um það. En líklega má maður nú ekki missa sig neitt svona rétt fyrir jólin. Sýna umburðarlyndi og mannkærleika. Versla mikið og éta einhver ósköp. Hvað sem því líður þá hlakka ég til komandi frídaga. Og við Kimi sendum ykkur öllum okkar bestu jólaóskir. Við ætlum að láta okkur líða vel og vonum að það verði eins hjá sem allra flestum. Ykkar einlægur Hösmagi.

Comments:
Gleðileg jól héðan frá Danaríki. Gott að þú þurftir ekki að flýja upp í efri koju vegna flóðanna allra.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online