Sunday, December 31, 2006

 

Gamlársdagur.

Lítið eftir af þessu ári. Hverfur brátt í skaut aldanna eins og öll hin. Mörg okkar líta nú yfir farinn veg á þessum degi. Stundum gott að líta um öxl og staldra við.Fyrir mér hefur þetta verið gott ár. Stundum ekki í góðu skapi yfir pólitíkinni og vonsku mannanna. Látum það liggja á milli hluta í síðasta pistli ársins. Ég er vís með að taka upp þann þráð aftur á næsta ári.
Gjöfult ár. Sonarsonur sem skírður var í Garðakirkju í gær. Ágúst Magnússon, nefndur í höfuð móðurafa síns. Stórbónda í Birtingaholti. Þegar Begga mín gerði mig að afa fyrir meira en 20 árum fékk ég nafn mitt á afastrákinn. Ekki bað ég um það en ósköp þótti mér vænt um það. Og ekki síður að vera trúað fyrir að halda honum undir skírn. Þessi ljúfi piltur er nú orðinn fulltíða maður. Stúdentsprófið í höfn og veisla framundan. Hann hefur fært afa sínum Fiskihrelli ómælda gleði í gegnum árin. Reyndar á það við um allan hópinn minn. Svo var veiðiskapurinn ljúfur að vanda. Nokkuð gjöfult ár og sífelld tilhlökkun að byrja aftur á þessari indælu iðju. Og fyrirheitna landið bíður. Eftir hríslunum sínum og góðum straumum frá mér og fleira fólki. Fólkinu sem Hösmaga finnst svo vænt um. Svo eignaðist ég grænu þrumuna á árinu. Afbragð annara vagna. Fyrir menn sem fæddir eru með bílagenin eru svona vagnar hrein lífsnautn. Sannkallaður draumur í dós. Vinstri grænn að lit og hestöflin nægilega mörg. Ég tel mig líka hafa hugsað bærilega um þennan þarfa þjón.
Og skáldið mitt með nýja afurð. Sem fengið hefur góða dóma. Sem gamli Hösmagi getur tekið undir. Allt er þetta nú til að auka á vellíðan sálarinnar. Ég horfi björtum augum á komandi ár. Ætla að reyna að njóta þess út í ystu æsar. Fagna vorinu og nálinni. Trjánum, grjótinu og vatninu. Fallegum sólardögum og slagverði. Öllum fiskunum, fuglunum og öðrum dýrum. Ekki síst himbrimanum á Ónefndavatni.

Þar sem himbriminn kallar og hamingjan grær
er hugur minn núna með konunni einu........

Það er sól í sinni Hösmaga þó dagsbirtan sé lítil enn. Eins og áður er rósemi hugans honum mikilvægari en allt annað. Hún er nú til staðar og verður vonandi svo á nýja árinu. Árinu sem ég hef svo miklar væntingar til. Ári fögnuðar, gleði og ástar. Við kisi minn sendum ykkur öllum okkar bestu kveðjur og óskir. Ég þakka kommentin á bloggið mitt. Megi nýja árið færa gæfu til allra krúttanna minna. Ykkar einlægur Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online