Sunday, December 10, 2006

 

Leggur.

Í gær fór ég að skoða nýjasta afleggjarann minn. Flottur gaur að sjálfsögðu. Átti góða stund með vístölufjölskyldunni í Garðabæ. Og ég var eiginlega búinn að gleyma því hvað nýfædd börn eru nú smá. Litla afapeyjanum lá nú líka á í heiminn og fæddist því smærri en von var til. En það á eftir að togna úr stráksa. Væri illa í ætt skotið ef það gengi ekki eftir. Fór líka í hina árlegu jólaheimsókn í Rúmfatalagerinn. Keypti svona sitt lítið af hverju. Ótrúlega mikið fyrir fimmarann í þessari verslun. Það versta við höfuðborgarferðirnar á þessum árstíma er tjaran og saltið. Eðalvagninn var orðinn skrautlegur þegar heim kom. Svartur eins og fjárans íhaldið og hvítur eins sála framsóknarmanns í afturbata. Það er afskaplega slæm blanda.Þetta verður hálfgerð kleppsvinna. Tjöruhreinsirinn er góður. En hann hirðir bónið af vagninum líka. Fyrst er bónað, svo er það salt og tjara, tjöruhreinsir, vatn og sápa og þá er kominn tími á að bóna. Það varð nú minna úr vondu veðri hér um slóðir en á horfðist. Nokkuð hvasst í gærkvöldi en blíða í morgun. Afskrifaði Tangavatnið þessa helgina enda nokkuð víst að talsverður ís er á vatninu. Að vísu alltaf nokkuð stór vök því þarna er kaldavermsl undan hrauni Heklu. Sé hvernig vikan verður og aldrei má maður segja aldrei. Þeir bíða eftir mér.
Hösmaga líður ákaflega vel þessa dagana. Þiggur gjafir stórar og reynir að endurgjalda þær að einhverju leyti. Sálarnæringin er ekki síður mikilvæg en hin. Gott að fá andlega næringu með nýreyktum laxi og Veiðivatnaurriða. Við Kimi erum báðir sælir og kátir. Unum félagsskap hvors annars á þessum rólega og ljúfa sunnudegi. Kveðjur til allra, ykkar Hösmagi, óhemjuern eftir aldri.

Comments:
Bestu kvedjur í Gardabaeinn med nýjustu handboltastjörnuna. Willstätt mun njóta góds af thessu eftir tuttugu ár eda svo.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online