Wednesday, December 20, 2006

 

Regnið þétt...

til foldar fellur. Nýi veðurfasinn hans Einars Sveinbjörnssonar hefur tekið völdin hér. Samkvæmt fréttum var Hvítá farin að flæða í uppsveitum. Vonandi verður nú ekki skaði af þessum vatnavöxtum og við Selfyssingar erum pollrólegir. Áin hefur þó vaxið verulega frá því í gær. Og alltaf er hún nú tignarleg, blessunin. Leiðin er þó greið til sjávar og við vonum hið besta.
Jólin nálgast óðfluga en Hösmagi er arfaslakur. Lærið komið í pækilinn og sauðahangikjötið í ísskápnum. Skáldið væntanlegt til upplesturs úr Heiminum á morgun.Og engin jólaös á þessum vinnustað. Sem sagt tíðindalítið af vígstöðvum Hösmaga. Hann hyggur nokkuð gott til þessarar komandi hátíðar. Ætlar að njóta hennar vel.Og ekki síður komandi árs. Segir svo hugur um að það verði gott ár. Gjöfult á mörgum sviðum. Og svo eru líka smátímamót á morgun. 2ja ára bloggafmæli Hösmaga. Stundum hef ég nú hugleitt að hætta þessum skrifum. En alltaf verður eitthvað til þess að mér snýst hugur. Myndi líklega verða hálfómögulegur ef ég hætti að geta skammast út í drauginn, véfréttina og alla hina. Kosningavetur framundan og örugglega næg tilefni til að skjóta inn orði og orði á stangli. Og svo kraumar í fleiri deiglum. Meira af því síðar. Kæru vinir, bestu kveðjur að sinni frá okkur Raikonen, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online