Monday, July 31, 2006

 

Næturkyrrð.

Næturkyrrðin ríkir og Hösmagi vakir. Meira að segja Raikonen er sofnaður aftur. Eitthvert slen yfir undirrituðum eftir Veiðivatnatúrinn. Angi af pest þó ég hafi nú haldið til vinnu á ný í gær. Við komum sáttir heim úr Veiðivötnum. Eins og jafnan áður. Fengum fallega fiska en veðrið var leiðinlegt svona meiripartinn af viðveru okkar þarna. Nokkur vindur og kosturinn við það er sá að friður verður fyrir andskotans mývarginum á meðan. Það lygndi á laugardagsmorguninn og þá var vargurinn í vaffinu sínu. Ég ætla svo aftur inneftir í dagsferð í veiðilok eftir tæpar 3 vikur. Þá er orðið svo áliðið að allur vindur er úr varginum. Og þá er tími þeirra stóru eins og sannaðist í fyrra. Ég er bara einn og hálfan tíma innúr og ætla aftur heim að kvöldi. Nýi vagninn hefur sannað sig sem góður veiðibíll. Líklega með sál eins og flestir mínir bílar um dagana. Það sem angrar mig þessa dagana er framferði Ísraelsmanna í Líbanon. Ætla samt að sitja á mér nú því ég yrði svo sannarlega stóryrtur ef ég byrjaði. Þeir munu halda áfram. Kanarnir hafa engan vilja til að stöðva þetta morðæði. Síonistarnir eru margir í USA. Ég er þó viss um að sagan mun að lokum dæma þessi glæpaverk. En það hjálpar þeim ekki sem nú deyja. Nóg um þetta í bili.
Nú styttist í næsta þátt í farsanum hjá Framsókn. Flokksins sem er í nýrri sókn að áliti Dóra Móra. Og maddömu Jónínu. Þegar véfréttin tekur við mun draugurinn stjórna áfram enn um hríð. Móri mun halda í strengina og kippa í og gefa eftir. Vonandi er þó bara tímaspursmál hvenær flokkurinn geyspar endanlega golunni. Kannski er einn þáttur eftir í þessu sjónarspili fáránleikans. Líklega dramatískur fyrir suma en sorgin verður víðsfjarri hjá undirrituðum. Eins og ég sagði um daginn mun ég ekki verða við útför framsóknarflokksins en geri mér dagamun og fagna heima.
Eftir nokkuð marga frídaga og góða veiði í júlí tekur nú við hinn grái hversdagsleiki á ný. Kvíði þó engu og horfi björtum augum fram á veginn. Ætla reyndar að vera í veiði alla laugardaga í águstmánuði og vertíðarlokin eru 2. september.Ef haustið verð ljúft er þó líklegt að henni verði framlengt.Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online