Monday, July 03, 2006

 

Að fá sér í ranann.

Ef ég væri ekki svona voðamikill reglumaður myndi ég hafa fengið mér ærlega í ranann eftir að portúgalir sendu englendinga til síns heima. Nú fer að styttast í lokin og spá mín er sú að Þjóðverjar fari létt með Ítali. Kæmi ekki á óvart að þeir léku til úrslita við Frakka. Portúgalar eru þó óútreiknanlegir og gætu komið á óvart.
Nú er aftur komið veður hér. Sannkallað slagveður. Gott að bæta við maðkabirgðirnar í kvöld. Nú eru komnir 27 laxar á land úr Ölfusá. Enginn laxlaus dagur enn og byrjunin því ein sú besta í mörg ár. Vonandi verður framhaldið enn betra. Sérstaklega væri æskilegt að fá stórgöngu á fimmtudag og föstudag. Spáin er enn óljós en liklega verður nú væta. Rokið er leiðinlegt við veiðiskapinn. Regnið klæða veiðimenn af sér með vöðlum og regnkápum. Nú verður Lancerinn notaður sem veiðibíll. Green Highlander fer í aðhlynningu. Búið er að meta tjónið uppá 150.000 Það er auðvitað hið versta mál. Þegar bílar verða gamlir og hæfilega krambúleraðir skiptir svona lagað engu máli. En þessi nýja 5 millu mubla verður að fá að halda reisn sinni. Tryggingafélögin eru líka til þess að bæta svona hluti. Ekkert er eðlilegra en fá eitthvað í staðinn fyrir alla aurana sem ég þarf að ausa út. Hátt í 300.000 á ári. Auðvitað væri þó betra að þurfa aldrei á neinum bótum að halda. Svona eins og þegar vissir hlutir eru keyptir og manns helsta ósk er að þurfa aldrei að nota þá. Slökkvitæki og eldvarnarteppi til dæmis. Eignatjón eru þó smámunir einir ef fólk sleppur. Slæm slysahelgi nýliðin og margir eiga um sárt að binda. Ég hugsa til þeirra og finn til með þeim. Og blaðurskjóðurnar hjá umferðarstofu tuða áfram. Nær væri að nota alla þá fjármuni sem þar er á glæ kastað til að laga verstu slysagildrurnar á þjóðvegum landsins. Efla lögregluna í baráttunni við umferðarofbeldið sem hér tíðkast. Við þurfum ekki að reka battarí eins og umferðarstofu til að segja okkur að verið sé að malbika Snorrabrautina. Segja okkur að keyra á löglegum hraða og sleppa akstri ef ákveðinn vökvi hefur runnið niður ranann. Mér er mikil raun að hlusta ár eftir ár á þessa síbylju. Enda skilar hún nákvæmlega engum árangri. Notum skynsemina og nýtum þessa fjármuni á annan hátt. Það mun skila árangri.

Nú sofa þeir báðir vinirnir, Raikonen og Pési. Þreyttir eftir útveru og áflog innan dyra. Drungi yfir öllu og ekki mótar fyrir fjallinu góða í þokunni. Svo vaknar bærinn og við höldum til starfa. Streðum fyrir brauði. Og leikjum. Eru það ekki okkar ær og kýr. Bestu kveðjur úr morgunsárinu, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online