Monday, July 17, 2006

 

Sumar ?

Einhver kerling spáði því að sumarið byrjaði 15. júlí. Ekki alveg sannspá því veðrið var hálfandstyggilegt þennan dag. 3ja stangadaginn góða. Okkur feðgum tókst þó að hrella 2 laxa og einn sjóbirting. Síðari hluti dagsins drukknaði einfaldlega í rigningu og roki.Gáfumst upp kl. 19. Nú er kominn 51 lax úr ánni auk nokkurra sjóbirtinga. Áin er skolug og nokkuð mikil en þó er vel hægt að reyna fyrir sér. Nú á ég 4 veiðidaga í þessari viku. Vinna í dag og afmæli Ingunnar Önnu í kvöld. Litla snótin hans afa er fjögurra ára í dag. Og kannski er önnur snót á leið í heiminn. Skýrist síðar. Sólin skín nú glatt og varla bærist hár á höfði. Gæti orðið góður dagur til margra hluta. Kannski að spá kerlingar sé bara 2 dögum á eftir áætlun. Þetta væri nú ekki amalegt veður í Veiðivötnin í næstu viku.Þessu ágæta veðri er spáð hér sunnanlands út þessa viku. Við eigum einfaldlega skilið að fá góðan veðurkafla nú. Þá er hægt að snýta úr sér leiðindunum vegna roks og rigningar. Raða geðprýðisgenunum upp aftur. Menn verða þungir og slappir í rosanum. Ef fram fer sem horfir mun fólk ná áttum á ný. Fegurð himinsins nær völdum og allir verða glaðir. Jafnvel draugurinn Dóri Móri mun brosa út í annað. Og voru þau nú ekki mörg brosin hans í lifanda lífi. Hösmagi er með sól í hjarta. Hlakkar til kvöldsins, morgundagsins og allra hinna daganna. Skáldið mun örugglega droppa við einhvern veiðidaganna í vikunni. Gott að standa upp frá andlegheitunum í Fúlagerði. Þetta verður lífleg og skemmtileg vika. Bestu kveðjur úr blíðunni, ykkar Hösmagi.

Comments:
Ekkert blogg? Framsóknarmenn prísa sig sæla á meðan.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online