Monday, July 24, 2006

 

Laxinn sem hló.

Ein skáldsagan um glæp heitir Löggan sem hló. Ég gríp stundum í Sjöman og Wahlö mér til hugarhægðar. Finnst ákaflega vænt um Martin Beck. Fyrir mörgum árum var ég að veiða í Víkinni í Ölfusá. Ég setti undir litla minitúbu sem heitir Collie dog. Og laxinn stóðst ekki freistinguna að glefsa í þetta silfraða og svarta gerfiskordýr. Hann virtist vera fastur í snörunni og undirritaður var alsæll. En þetta var nú sýnd veiði en ekki gefin. Skyndilega tók laxinn strikið að landi. Upp að berginu við bakkann. Og öllum viðstöddum til undrunar tók laxinn að berja hausnum við bergið. Og viti menn. Fljótlega hrökk túban úr kjaftvikinu á fiskinum. Hann synti aðeins frá landi, rak hausinn uppúr vatninu og ég og aðrir viðstaddir sáum ekki betur en hann væri að hlægja. Hann hefði líka rekið út úr sér tunguna ef hún hefði verið til staðar. Þetta er ein af ótalmörgum skemmtilegum minningum úr veiðisögu Hösmaga. Og þessi lax er ákaflega minnisstæður eins og margir aðrir sem hafa sloppið. Hann var ráðagóður og barg lífi sínu með klækjum sínum. Verður því eftirminnilegri en allir laxarnir sem undirritaður hefur spillt um dagana. Síðasti laxveiðidagurinn í þessari lotu er í dag. Og einmitt í Víkinni. Ég ætla að setja túbú skáldsins undir. Æskrím étur hann. Kannski skeður eitthvað álíka skemmtilegt.
Ég keypti tengdamömmubox í gær. Frábært nafn á farangursgeymslu sem sett er á toppinn á ferðavögnum. Varð mér úti um þessa hirslu á vildarverði fyrir hreina tilviljun. Og strákarnir í Bílanausti voru fljótir að festa hana á hinn gljáandi fína Green Highlander. Ég sagði þeim reyndar sem var að fyrrum tengdamamma væri nýlátin. Hef oft hugsað til hennar að undanförnu. Á henni margt gott upp að unna og aðeins góðar minningar um þessa ágætu konu. Hefði örugglega ekki látið hana dúsa í boxinu á ferðalögum.
Hér ríkir nú næturkyrrðin ein. Ekki einu sinni framsóknarmaður á ferli. Logn og nærri 13 stiga hiti. Það verður ljúft að renna fyrir þann silfraða í fyrramálið Held að dagurinn lofi góðu. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online