Sunday, July 09, 2006

 

Vanagangur.

Grár mánudagur og lífið gengur sinn gang. Kyrrt veður og hiti 9 gráður. Áin gjörsamlega líflaus í gær og enginn fiskur veiddist. Kannski er laxinn seinna á ferðinni nú vegna kalda vorsins. Vona svo sannarlega að líf verði á laugardaginn en þá er hinn rómaði 3ja stanga dagur. Hefur alltaf gengið nokkuð vel undanfarin ár og ég ætla að trúa því að svo verði einnig nú.
Vinna klukkan 9. Síðan er jarðarför fyrrum tengdamömmu kl. 13. Veiði á miðvikudag og síðan 4 veiðidagar í næstu viku. Og Veiðivatnatúrinn árlegi í þar næstu viku. Það er sem sagt allmikið framundan hjá Hösmaga. Hef sannfrétt að Siggi lambakóngur hafi áhuga á að slást í för með okkur feðgum. Sannarlega mun ég stuðla að því að svo verði. Hann er einn af aufúsugestum heimsins hvar sem hann kemur. Rólegur og jafnlyndur eins og afi. Við áttum mkið sameiginlegt að sælda í æsku hans. Piltur að mínu skapi og hann mun ekki spilla félagsskapnum í Veiðivatnagenginu. Vonandi ná Vötnin að hlýna á næstunni. Þau eru nú bara rétt um 5 gráður. Stóri fiskurinn enn á djúpmiðum. Fróðlegt að frétta af Magga og sonum í dag.
Raikonen steinsefur með loppu undir haus. Yfirkisi í Ástjörn 7. Gleðigjafi fóstra síns og varðdýr hið besta. Það er nú ekki slæmt að eiga slíkan vin og félaga. Segir að vísu fátt og kvartar ekki. Lífgar bara uppá tilveruna með nærveru sinni og lífskrafti. Enn kyrrð úti og bara einstaka morgunhanar komnir á stjá. Svo vaknar bærinn og hjólið snýst áfram. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online