Monday, July 10, 2006

 

Enn og aftur.......

af framsókn. Jónína fékk loks ráðherraembætti hjá Dóra. Hún ætlar að verða samhent með Nonna Sig. Erfðaprinsinum sem Halldór valdi til að ýta Guðna Ágústssyni til hliðar. Guðni var nefnilega ekki nógu samhentur. Jafnvel ekki hrifinn af staðfestunni í Írak. Dröslast með gamlar bændahugsjónir á bakinu og annað sem ekki á lengur við í framsóknarflokknum. Allt saman er þetta ný mynd uppdráttarsýkinnar í þessum flokki. Gefist Guðni upp fyrir hægri öflunum sem Dóri mun stýra áfram er flokkurinn endanlega búinn að gefa upp á bátinn það skásta sem þar var til. Kannski er það bara fagnaðarefni. Þá geta skárri framsóknarmennirnir komið sér fyrir þar sem þeir eiga heima. Og hugmynd Hannesar Hólmsteins gengið upp. Sameina þessa tvo íhaldsflokka. Flokkinn munu fáir trega. Hinn ágæti Simmi sjónvarpsmaður ræddi við nýju maddonnuna í flokknum í kastljósinu í gær. Að dómi Jónínu var uppi á honum tippið. Tók stórt uppí sig. Talaði um vargöld í framsóknarflokknum. Það er auðvitað dæmigert fyrir þessa nýju spákonu framsóknar að ekki má nefna hlutina réttum nöfnum. Flokkurinn er í þann mund að leysast upp í frumeindir sínar. Það er engin uppstokkun að formaðurinn fremji harakiri og heimti að sumir fari að dæmi hans. Draugurinn raðar svo á garðann eins og honum þóknast. Flokkurinn verður ekki skorinn upp við meini sínu. Hann verður bara skorinn niður. Í snörunni en ekki úr henni. Það mun væntanlega koma í ljós á næstunni hvað Guðni gerir. Lætur hann slag standa eða hlýðir hann foringjanum og dregur á kvið sér? Það væri honum nú reyndar ólíkt. Við hin, sem ekki erum í neinum sjálfsmorðshugleiðingum, fylgjumst með þessu fáránlega sjónarspili. Það er komið þannig fyrir framsóknarflokknum að nokkrir kostir eru fyrir hendi. Og allir mjög slæmir. Gamla máltækið um að hver uppskeri eins og hann sáir er í fullu gildi enn.

Áin orðin nokkuð falleg aftur. Mun reyna fyrir mér á morgun. Dimmt yfir nú en spáir norðangjólu aftur á morgun. Döpur veiði síðustu daga en bjartsýnin ein ríkir hjá undirrituðum. Ef við höfum engar væntingar gengur ekkert upp. Bestu kveðjur, Ykkar Hösmagi, árrisull að venju.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online