Saturday, July 08, 2006

 

Sumarkuldi.

Eftir rigningarnar miklu tók norðanáttin völdin. Lafir í 10 gráðum nú um hádegi á laugardegi. Ég var í veiðiskap í gær. Áin mikil og skolug. Tókst þó að krækja í 2 laxa í gærkvöldi. Var farinn að skjálfa af kulda og flýði heim þegar hálftími lifði af veiðitímanum. Ósköp gott að skríða undir sængina þegar heim kom. Þetta voru nú einu laxarnir úr ánni í gær svo ég má vera sáttur. Svipað veður í dag og ég er bara feginn að vera heima í rólegheitum. Enn veiðidagur á morgun og ég mun sannarlega fara vel búinn að heiman. Rokið er ekki mitt veður í veiðiskap. Maggi og synir í Veiðivötnum í dag. Vonandi eru ullarpeysurnar meðferðis. Vöðlurnar eru líka góðar í kulda. Ég hef aldrei verið svo kvalinn af veiðidellu að ég hafi fengið áhuga á vorveiði eða októberveiði. Þegar frýs í lykkjunum og kuldahrollurinn streymir um þig. Líklega er það nú alveg sama hvað við tökum okkur fyrir hendur utandyra á ísaköldu landi. Veðrið skiptir öllu máli. Ég á jafnvel von á skáldinu í veiði á morgun. Það kostar skáldið að vísu að vakna snemma. Sennilega væri kvöld og næturveiði helst við hæfi skáldsins. Gæti þó breyst síðar. Við verðum flest kvöldsvæfari með aldrinum og sprækari upp á morgnana. Kann einhver á því skýringu? Aldrei þessu vant ætlar Hösmagi að elda sér mat nú í hádeginu. Nætursöltuð ýsa, kartöflur og smér. Alveg þrusugott. Kveðjur úr norðanbálinu, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online